Enski boltinn

Guardiola: Þarf ég að segja þetta aftur?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland fagnar metmarkinu sínu í gærkvöldi.
Erling Haaland fagnar metmarkinu sínu í gærkvöldi. AP/Dave Thompson

Það er nánast daglegt brauð að norski framherjinn Erling Haaland bæti einhvers konar markamet enda raðar hann inn mörkum með Manchester City.

Haaland gerði það einmitt í gærkvöldi þegar hann skoraði fyrsta markið í 3-2 endurkomusigri City á móti RB Leipzig.

Þessi 23 ára gamli framherji varð þar með bæði fljótastur og yngstur allra í sögunni til að skora fjörutíu mörk í Meistaradeildinni. Þremur dögum fyrr hafði hann verið fljótastur til að skora fimmtíu mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er auðvitað alltaf spurður út í öll þessi met sem Haaland er að slá.

„Aftur? Þarf ég að segja þetta aftur?,“ sagði Pep Guardiola hlæjandi á blaðamannafundi eftir leikinn í gær.

„Eins og ég hef sagt þúsund milljón sinnum áður þá þykir mér mikið til þess koma. Þeir unnu leikinn og annað met. Til hamingju. Hann er frábær leikmaður. Eins og ég segi ykkur hvað eftir annað þá erum við mjög ánægð með hann,“ sagði Guardiola.

„Við elskum hann en ekki bara fyrir mörkin sem hann skorar heldur fyrir margt annað líka,“ sagði Guardiola.

Haaland þurfti aðeins 35 leiki til að skora 40 mörk í Meistaradeildinni en með því sló hann met Ruud van Nistelrooy sem náði því í 45 leikjum.

Hann sló einnig met Kylian Mbappé með því að vera sá yngsti sem nær þessu. Haaland var aðeins 23 ára og 130 daga gamall í gær.

Manchester City var komið áfram en tryggði sér sigur í riðlinum í gær og það var Guardiola mikilvægt þótt að hann hafi ekki veirð sáttur með frammistöðuna ekki síst í fyrri hálfleiknum sem liðið tapaði 2-0.

„Við verðum í efri styrkleikaflokknum í febrúar. Ég veit ekki hverjum við munum mæta en seinni leikurinn verður á heimavelli og í kvöld sýndum við enn á ný að við getum komið til baka,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×