Viðskipti innlent

Hvetja stjórn­endur líf­eyris­sjóða til að hafna fjár­festingu í sjókvíaeldi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sjókvíaeldi í Patreksfjörð.
Sjókvíaeldi í Patreksfjörð. Vísir/Einar

Landssamband veiðifélaga hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem það hvetur stjórnendur lífeyrissjóða til að hafna allri fjárfestingu í félögum sem stunda sjókvíaeldi.

Tilefni yfirlýsingarinnar er hlutafjárútboð Ísfélagsins hf. sem er sagt eiga 29,3 prósenta eignahlut í norska hlutafélaginu Austur Holding AS, sem eigi 55,3 prósent eignahlut í Ice Fish Farms AS. Ice Fish Farms stundi meðal annars eldi á frjóum laxi af norskum uppruna í sjókvíum hér við land.

Eignarhlutur Ísfélagsins í Ice Fish Farms sé metinn á um 6,3 milljarða króna.

Landssambandið segist hafna því alfarið að lífeyrissjóðir landsmanna séu notaðir til að fjárfesta í sjókvíaeldi, meðal annars vegna áfalla í greininni, stóraukinnar áhættu af fjárfestingunni og ákalli almennings eftir banni gegn sjókvíaeldi.

Meðal þeirra áfalla sem nefnd eru til sögunnar eru sleppingar úr kvíum og lúsafaraldur. Þá segir að Hafrannsóknarstofnun hafi í kjölfarið dregið til baka tillögu að nýju áhættumati erfðablöndunar og hyggist gefa út nýja tillögu þegar búið verði að meta afleiðingar áfallana.

„Áhættumat erfðablöndunar setur hámark á það magn af eldislaxi sem ala má í sjókvíum hér við land. Næstu mánuðina ríkir því fullkomin óvissa um þetta hámark og eru meiri líkur en minni á að það verði lækkað. Því fylgir fjárfestingum í sjókvíaeldi veruleg aukin áhætta næstu mánuði þar til nýtt áhættumat hefur verið gefið út. Verðmat fyrirtækja í greininni byggir nánast að öllu leyti á opinberum framleiðsluheimildum,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá sé ljóst að þrýstingur á stjórnvöld um að banna sjókvíaeldi muni aukast á næstu misserum og auka enn á óvissu um framtíðarhorfur greinarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×