Fótbolti

Celtic sektaðir í þriðja sinn fyrir hegðun stuðnings­manna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Palestínski fáninn var áberandi í leik Celtic og Atletico Madrid
Palestínski fáninn var áberandi í leik Celtic og Atletico Madrid rob casey / getty images

UEFA hefur sektað skoska knattspyrnufélagið Celtic um €29.000, sem jafngildir tæpum fjórum og hálfum milljónum króna, fyrir hegðun stuðningsmanna á leik liðsins gegn Atletico Madrid. 

Viðureigninni lauk með 2-2 jafntefli eftir æsispennandi leik. Stigið sem Celtic fékk úr þeim leik er það eina sem liðið hefur unnið sér inn í E-riðli Meistaradeildarinnar.

Stuðningsmenn Celtic hundsuðu fyrirmæli félagsins um að mæta ekki með borða eða fána sem tengdust átökunum milli Ísrael og Palestínu. Palestínski fáninn var mjög áberandi í stúkunni en ekki kemur fram í yfirlýsingu UEFA hver skilaboðin hafi verið sem fóru fyrir brjóstið á þeim. 

Í yfirlýsingu UEFA segir að sektin byggist á þremur þáttum, €17.500 sekt fyrir að birta „ögrandi skilaboð sem voru í eðli sínu særandi“, €8.000 fyrir að hindra almenning frá því að ganga leiðar sinnar á vellinum og €3.500 fyrir að kveikja í flugeldum. Andstæðingar þeirra frá Madríd fengu sömuleiðis €3.000 sekt fyrir að kveikja í flugeldum. 

Celtic hefur nú fengið sektir í þremur af fjórum leikjum sínum í Meistaradeild Evrópu á þessu tímabili. Flugeldar eru helsti kostnaðarliðurinn, stuðningsmenn liðsins virðast mjög brennuglaðir og félagið hefur verið sektað um samtals €75.900 fyrir íkveikjur á tímabilinu.

Félagið hefur biðlað til stuðningsmanna sinna sem munu ferðast til Rómar að halda sig hæga og birta engin móðgandi skilaboð þegar Celtic mætir Lazio næstkomandi þriðjudag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×