Innlent

Skora á lána­stofnanir að veita Grind­víkingum fullt greiðsluhlé

Lovísa Arnardóttir skrifar
Miklar skemmdir eru víða í Grindavík.
Miklar skemmdir eru víða í Grindavík. Vísir/Vilhelm

Níu samtök launafólks skora á lánastofnanir að veita Grindvíkingum fullt greiðsluhlé næstu þrjá mánuði og falli frá vöxtum og verðbótum á sama tímabili. Samtökin segja mikilvægt að Grindvíkingar fái fjárhagslegt svigrúm til að takast á við þau áföll sem þau hafa orðið fyrir síðustu daga í kjölfar náttúruhamfara í bænum.

Níu samtök launafólks skora nú á lánastofnanir að veita Grindvíkingum full greiðsluhlé næstu þrjá mánuði. Það kemur fram í tilkynningu en samtökin níu eru BYGGIÐN – Félag byggingamanna, Efling-stéttarfélag, Matvæla og veitingafélag Íslands (MATVÍS), Rafiðnaðarsamband Íslands, Sjómanna og vélstjórafélag Grindavíkur, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélagið Hlíf, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna og VR stéttarfélag.

„Grindvíkingar takast nú á við einhverjar mestu náttúruhamfarir sem orðið hafa í byggð á Íslandi í hálfa öld. Fjögur þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og búa við mikla óvissu um framtíð sína og fjárhagslega afkomu. Ljóst er að gífurlegar skemmdir hafa orðið á eignum í bænum og óvíst hvort eða hvenær Grindvíkingar geta snúið aftur,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Í áskorun þeirra felst jafnframt að lánastofnanir falli frá vöxtum og verðbótum á tímabilinu. Mikilvægt sé að Grindvíkingar fái fjárhagslegt svigrúm til að takast á við þau áföll sem þeir hafa orðið fyrir og þann nýja veruleika sem við þeim blasir.


Tengdar fréttir

„Ástandið er að breytast úr sorg í reiði“

Maður úr Grindavík segir íbúa bæjarins tifandi tímasprengju. Fólki sé að verða ljóst að það sé ekki á leiðinni heim til sín á næstunni og að bankarnir muni ekki koma því til aðstoðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×