Erlent

Hundur yfir­gaf ekki látinn hús­bónda sinn í tíu vikur

Jón Þór Stefánsson skrifar
Maðurinn hafði ætlað í veiðiferð með hundinum. Hann lét lífið, en hundurinn yfirgaf ekki lík hans. Myndin er úr safni.
Maðurinn hafði ætlað í veiðiferð með hundinum. Hann lét lífið, en hundurinn yfirgaf ekki lík hans. Myndin er úr safni. EPA

Hundur fannst á lífi við hlið látins húsbónda síns í fjöllum Colorado-ríkis í Bandaríkjunum. Þeir höfðu verið týndir tíu vikur, eftir að hafa farið á veiðar.

Hinn 71 árs gamli Rich Moore fór ásamt hundinum sínum Finney, sem er af tegundinni Jack Russell terrier, í veiðiferð um miðjan ágúst, en þeir sneri aldrei aftur.

Lík Moore fannst eftir margra daga leit í lok október, en Finney var við hlið hans. Fram kemur að hann hafi látist af veikindum.

BBC fjallar um málið, en í frétt miðilsins kemur fram að hundurinn hafi verið um það bil sex kílóa þungur þegar hann fannst, sem er um helmingur eðlilegar líkamsþyngdar.

Hundinum var flogið frá líki húsbóndans til dýralæknis og síðan fjölskyldu Moore.

„Við erum mjög ánægð með að Finney hafi snúið aftur til fjölskyldunnar. Þau misstu ástvin, en eiga enn þennan dásamlega og trygga hund,“ er haft eftir björgunarsveitarkonu sem kom að leitinni. Hún lýsir málinu sem kraftaverki.

Dana Holby, ekkja Rich Moore, hefur greint frá því að eiginmaður sinn hafi sagt henni símleiðis að hann ætlaði í umrædda veiðiferð. Hún hafi sagt honum að fara ekki einn.

Þá hefur verið haft eftir henni að það hafi komið henni verulega á óvart að Finney hafi lifað af. Hún og sonur hennar hafi verið hágrátandi þegar þau sóttu hundinn á dýraspítalann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×