Innlent

Opna þjónustu­mið­stöð fyrir Grind­víkinga í Toll­húsinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Tollhúsið.
Tollhúsið. Vísir/Vilhelm

Á morgun verður opnuð þjónustumiðstöð í Tollhúsinu við Tryggvagötu, fyrir Grindvíkinga og aðra sem hafa orðið fyrir áhrifum jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Boðið verður upp á samveru, stuðning, ráðgjöf og fræðslu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum, en ríkislögreglustjóri, Rauði krossinn og Grindavíkurbær standa að miðstöðinni, sem verður opnuð klukkan 12 á morgun. Alla jafna verður hún opin á virkum dögum frá kl 10 til 18. 

„Verkefni þjónustumiðstöðvar felast í stuðningi við íbúa Grindavíkurbæjar og aðra sem á einhvern hátt hafa orðið fyrir áhrifum jarðhræringanna á Reykjanesi. Þar er boðið upp á samveru og kaffitár og leikhorn fyrir börn. Rauði krossinn býður upp á sálfélagslegan stuðning og félagsleg ráðgjöf verður í boði á vegum starfsfólks Grindavíkurbæjar. Boðið verður upp á upplýsingagjöf, fræðslu og ráðgjöf af ýmsu tagi og mun sá stuðningur verða útfærður í samræmi við þarfir og óskir íbúa Grindavíkurbæjar,“ segir í tilkynningu Almannavarna.

Þá eru fjölmiðlar sérstaklega beðnir um að sýna nærgætni og heimsækja ekki þjónustumiðstöðina eða dvelja fyrir utan inngang hennar. Þeim verði boðið í heimsókn von bráðar og geti þá kynnt sér starfsemi stöðvarinnar. 

„Grindvíkingar og aðrir íbúar á Reykjanesi eru hvattir til að nýta sér þjónustumiðstöðina með öll þau erindi sem á þeim hvíla varðandi atburði undanfarna daga. Heitt er á könnunni fyrir þau sem hafa tök á að mæta í Tollhúsið í Reykjavík en einnig er hægt að hafa samband í síma 855 2787 og í netfangið fyrirspurnir@almannavarnir.is.“


Tengdar fréttir

Með fimm manna fjölskyldu inni á systur sinni og reiður stjórnvöldum

Grindvíkingur sem gistir með fimm manna fjölskyldu sína hjá systur sinni í Keflavík segir að sér þyki viðbrögð stjórnvalda við jarðhræringum í Grindavík máttlaus. Ekki sé haldið nógu vel utan um Grindvíkinga, sem margir hverjir geti ekki hugsað sér að snúa aftur í bæinn en sitji uppi með verðlausar eignir í fanginu.

Grindvíkingar ætla sér heim aftur

Margar fjölskyldur úr Grindavík eru nú í sumarhúsum, fjölbýlishúsum eða í einbýlishúsum á Suðurlandi og reyna að láta fara vel um sig. Íbúarnir ætlar sér heim aftur og leggja áherslu á jákvæðni og hreyfingu við krefjandi aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×