Fótbolti

Slökktu öll ljós á vellinum eftir að erki­fjendurnir tryggðu sér titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það náðust ekki góðar myndir af fagnaðarlátum Edison Flores og félaga í Universitario liðinu enda algjört myrkur á leikvanginum.
Það náðust ekki góðar myndir af fagnaðarlátum Edison Flores og félaga í Universitario liðinu enda algjört myrkur á leikvanginum. Getty/Raul Sifuentes

Það er draumur margra félaga að tryggja sér meistaratitil á heimavelli erkifjendanna. Dæmi í Perú sýnir þó að ef slíkt gerist þá er von á öllu.

Universitario tryggði sér sinn fyrsta perúska meistaratitil í tíu ár með 2-0 sigri á útivelli á móti erkifjendum sínum í Alianza Lima.

Alianza liðið hafði unnið titilinn tvö undanfarin ár og var búið að minnka forskot Universitario í heildartitlum niður í einn titil en eftir þennan sigur Universitario er staðan 27-25.

Þetta eru því miklir erkifjendur, tvö sigursælustu liðin og nágrannar að auki í höfuðborginni Lima.

Alianza var líka í góðum málum eftir 1-1 jafntefli á útivelli í fyrri leiknum.

Þeir náðu ekki að nýta sér það að vera á heimavelli. Edison Flores kom Universitario í 1-0 strax á 3. mínútu og Horacio Calcaterra innsiglaði sigurinn og titilinn á 82. mínútu.

Um leið og dómarinn flautaði leikinn af og leikmenn Universitario byrjuðu að fagna þá slökktu heimamenn öll ljós á vellinum.

Það var reyndar ljós frá einhverjum auglýsingaskiltum en annars algjört myrkur á vellinum.

Leikmenn Universitario létu þetta ekkert á sig fá heldur fögnuðu titlinum í myrkrinu. Það má sjá þessa ótrúlegu sigurstund hér fyrir neðan. Ef Instagram færslan birtist ekki þá á að duga að endurhlaða fréttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×