Erlent

Segir al­þjóða­sam­fé­lagið stara niður í hyl­dýpið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Albanese hvetur Ísraelsmenn til að velta því fyrir sér hvernig þeir hyggjast stuðla að friði.
Albanese hvetur Ísraelsmenn til að velta því fyrir sér hvernig þeir hyggjast stuðla að friði. epa/Salvatore Di Nolfi

Francesca Albanese, sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Palestínu, segir tilraunir Ísraelsmanna til að tortíma Hamas-samtökunum í kjölfar árásanna 7. október muni aðeins verða til þess að magna upp öfgahyggju.

Hún segir aðgerðirnar einnig ólöglegar.

Albanese segir í viðtali við Guardian að alþjóðasamfélagið sé nú að uppskera ávöxt þess að hafa hunsað viðvaranir hennar og annarra sem hefðu gagnrýnt „kerfisbundna aðför Ísraels gegn mannréttindum Palestínumanna“.

„Við vöruðum alþjóðasamfélagið við, við vöruðum mannréttindasamfélagið við en enginn hlustaði,“ segir Albanese. „Nú höfum við náð þeim punkti þar sem það verður ekki aftur snúið, þar sem möguleikinn á friðasmlegri sambúð hefur hrapað lóðrétt fram af kletti. 

Raunar erum við að stara niður í hyldýpið.“

Ísraelsmenn hafa oftsinnis sakað Albanese, sem er ítölsk, um hlutdrægni en hún hefur neitað þeirri sök.

Hún hvetur Ísraelsmenn til að íhuga eigin hagsmuni.

„Helmingur innviða Gasa er eyðilagður. Um 9.000 hafa verið drepnir, 3.500 af þeim börn, yfir þúsund eru enn grafnir í húsarústum. Hvernig í ósköpunum á það að leiða til friðar?“

Albanese segist efins um að hægt sé að útrýma Hamas-samtökunum, sem séu ekki aðeins hernaðarleg áskorun heldur pólitískur raunveruleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×