Skoðun

Opið bréf til ríkis­stjórnarinnar! Að­gerðir núna

Hafdís Ólafsdóttir skrifar

Kæru ráðherrar,

Ég er ekki vön því að skrifa ráðamönnum eða vera hávær opinberlega. En það er ekki hægt að horfa á það sem er að gerast í Palestínu og aðhafast ekkert eða að leyfa ykkur að draga Ísland niður í svaðið með fleiri vestrænum ríkjum.

Ísrael hefur ítrekað brotið alþjóðalög, mannúðarlög og gerst sekt um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Má þar nefna með hernáminu, með því að koma á aðskilnaðarstefnu á hernumdum svæðum Palestínu, með ólöglegum landtökubyggðum, með því að vernda ekki óbreytta borgara heldur þvert á móti ráðast á þá sem og heilbrigðisstarfsfólk og fréttamenn, með því að sprengja sjúkrahús, skóla, sjúkrabíla og með því að loka á vatnsbirgðir, olíu, rafmagn, mat og hjálpargögn og aðrar lífsnauðsynjar til Gaza og svo áfram mætti telja.

En til hvers eru lögin ef ekki er farið eftir þeim eða eiga lögin bara við um suma?

Vestrænir pólitíkusar og fjölmiðlar margir virðast hafa fengið sömu handbókina um hvernig eigi að svara ásökunum á hendur Ísraels. Jú “Ísrael á rétt á að verja sig” og bera við Sáttmála Sameinuðu þjóðanna grein 51.

En það er einfaldlega ekki rétt.

Samkvæmt Alþjóðadómstólnum í Haag hefur Ísrael ekki rétt á að verja sig fyrir árásum frá svæði sem þeir sjálfir hernema (málsgrein 139, ráðgefandi álit frá 2004).

Gaza er hernumið af Ísrael.

Það er verið að fremja þjóðarmorð fyrir framan augun á okkur og þið aðhafist ekkert. Þið hunsið alþjóðalög, sitjið hjá í okkar nafni í atkvæðagreiðslu Neyðarfundar SU, utanríkisráðherra efast um að Ísraelsher sé að ráðast á Gaza og áfram er hægt að þylja upp tilvik þar sem vanhæfni ykkar sem þjóðarleiðtoga er augljós.

Hver eruð þið eiginlega? Hvar er mannúðin? Hvar er réttlætið?

Beitið ykkur fyrir því að koma á vopnahléi, fordæmið árásir og mannréttindabrot Ísraela gagnvart Palestínu, slítið stjórnmálasambandi við Ísrael og hvetjið til efnahagsþvingana gegn Ísrael þar til þau láta af aðskilnaðarstefnu sinni gagnvart Palestínu.

Núna er tíminn.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×