Erlent

Hrópaði „þið munuð öll deyja“ og var skotin átta sinnum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Frá aðgerðum lögreglu í dag. 
Frá aðgerðum lögreglu í dag.  AP

Lögreglumenn í París skutu konu klædda hijab svo hún hlaut lífshættulega áverka eftir að hún hrópaði orðin „Allahu Akbar“ eða „Guð er máttugastur“ og „þið munuð öll deyja“ í lestarstöð í borginni í morgun. 

Konan var skotin á lestarstöðinni Bibliotheque François-Mitterrand. Að sögn sjónarvotta hafði hún „látið frá sér ógnandi, jihadísk ummæli“. Franskir miðlar hafa eftir embætti saksóknara að konan hafi hótað að sprengja sig í loft upp.

Þegar lögregla kom á vettvang var konan beðin um að halda ró sinni og rétta fram hendur. 

„Það sem gerðist síðan var að lögreglumenn höfðu engra annarra kosta völ en að skjóta á konuna í ljósi þess hve hættulegar aðstæðurnar voru,“ sagði Oliver Veran, talsmaður yfirvalda um málið. 

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu í París var hún skotin í kviðinn og í kjölfarið flutt á sjúkrahús. Þá séu áverkar hennar lífshættulegir samkvæmt upplýsingum lögreglumanns. Konan var hvorki með skotvopn né sprengiefni á sér þegar hún var skotin.

Í frétt Reuters segir að Frakkland sé nú á hæsta viðbúnaðarstigi eftir að grunnskólakennari var skotinn til bana í bænum Arras í Frakklandi fyrr í mánuðinum. Að sögn lögreglu hrópaði árásarmaðurinn í þeirri árás orðin „Allahu Akbar“ meðan á henni stóð. 

Talsmaður lögreglunnar í París segir líklegt að konan sé sú sama og sendi frönskum öryggissveitum hryðjuverkahótun fyrir tveimur árum og að hún hafi verið vistuð á geðdeild í kjölfarið. 

Tvö mál tengd atvikinu eru nú í rannsókn. Annars vegar hátterni konunnar og hins vegar lögmæti vopnanotkunar lögreglunnar í aðstæðunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×