Erlent

Úkraínsk Rússahækja skotin á Krímskaga

Samúel Karl Ólason skrifar
Oleg Tsarev, flúði til Donbas-svæðisins á árum áður og reyndi að sameina aðskilnaðarsinna í Lúhansk og Dónetsk. Rússar ætluðu mögulega að gera hann að forseta Úkraínu, hefði innrás þeirra í fyrra heppnast.
Oleg Tsarev, flúði til Donbas-svæðisins á árum áður og reyndi að sameina aðskilnaðarsinna í Lúhansk og Dónetsk. Rússar ætluðu mögulega að gera hann að forseta Úkraínu, hefði innrás þeirra í fyrra heppnast. EPA/SERGEI ILNITSKY

Oleg Tsarev, fyrrverandi þingmaður í Úkraínu, er á sjúkrahúsi og sagður í alvarlegu ástandi eftir að hann var skotinn á Krímskaga síðustu nótt. Tsarev er sakaður um að hafa svikið Úkraínu og gengið til liðs við Rússa.

Í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar í fyrra er Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagður hafa haft Tsarev á lista yfir menn sem gætu stjórnað Úkraínu í hans umboði, eftir að innrásinni væri lokið og Rússar búnir að hernema Úkraínu.

Eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga ólöglega árið 2014, ýttu undir átök í austurhluta landsins og tóku beinan þátt í þeim átökum með aðskilnaðarsinnum, bauð Tsarev sig fram til forseta. Max Seddon, frá Financial Times, rifjaði upp í dag að það framboð hafi ekki farið vel.

Tsarev var eitt sinn eltur af áhorfendum úr upptökuveri sjónvarpsstöðvar þar sem hann var barinn.

Hann flúði síðar til Donbas-svæðisins þar sem hann reyndi að sameina aðskilnaðarsinnana í Lúhansk og Dónetsk. Síðar flutti hann til Krímskaga, eftir að hann var ákærður fyrir að styðja aðskilnaðarsinnana.

Á Telegram-síðu Tsarevs segir að tilræðismaður hafi skotið hann tvisvar sinnum á heimili hans og að yfirvöld í Rússlandi hafi málið til skoðunar. Nánar tiltekið hafi FSB, áður KGB, hafið rannsókn.

Fyrst í morgun bárust fregnir af því að Tsarev hefði verið stunginn eða að eitrað hafi verið fyrir honum. Í samtali við TASS, sem er í eigu rússneska ríkisins, segir samstarfsmaður Tsarevs að hann hafi verið skotinn.

Þá segir á vef fréttaveitunnar að engar upplýsingar um tilræðismanninn liggi fyrir.

Heyja stríð gegn Rússum í skuggunum

Fyrr í vikunni var sagt frá því að leyniþjónustur Úkraínu héldu úti hópum njósnara sem hefðu meðal annars verið þjálfaðir og vopnaðir af Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA). Þessir menn eru sagðir heyja eigið stríð gegn Rússum og úkraínskum stuðningsmönnum þeirra í skuggunum.

Meðal annars hafa þeir myrt samverkamenn Rússa í austurhluta Úkraínu og rússneska hermenn. Í fyrstu voru þessir menn handsamaðir en það breyttist vegna ódæða Rússa og sveita þeirra í austurhluta Úkraínu og annarsstaðar í Rússlandi.

Njósnaranir eru meðal annars sagðir hafa banað rússneskum kafbátaskipstjóra og Maríu Dúgínu, dóttur hins umdeilda heimspekins Alexander Dúgín.

Ekki liggur fyrir að þessir hópar hafi komið að banatilræðinu á Tsarev en fjölmargir samstarfsmenn Rússa í Úkraínu hafa verið myrtir á undanförnum mánuðum.


Tengdar fréttir

Segja Rússa taka eigin hermenn af lífi

Yfirmenn í rússneska hernum taka eigin hermenn sem neita að fylgja skipunum af lífi og hafa hótað því að myrða heilu hersveitirnar, hörfi þær af víglínunum í Úkraínu. Þykir það til marks um lélegan baráttuanda rússneskra hersveita.

Gengur illa að auka framleiðslu skotfæra

Ætlanir Evrópusambandsins varðandi sendingar skotfæra til Úkraínu virðast ekki ætla að ganga eftir. Vandræði Evrópuríkja við að auka framleiðslu skotfæra gæti komið niður á vörnum Úkraínumanna og veitt Rússum ákveðið forskot.

Slóvakía hættir hernaðar­að­stoð við Úkraínu

Nýskipaður forsætisráðherra Slóvakíu, Robert Fico, tilkynnti fyrr í dag að stjórnvöld þar í landi muni stöðva hernaðaraðstoð til Úkraínu og hætta þátttöku landsins í viðskiptabanni gagnvart Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×