Innlent

Fleiri en einn leitað til Stíga­móta vegna séra Frið­riks

Lovísa Arnardóttir skrifar
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir að hún hafi heyrt um mögulegt ofbeldi sr. Friðriks áður en hún hóf störf hjá Stígamótum. 
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir að hún hafi heyrt um mögulegt ofbeldi sr. Friðriks áður en hún hóf störf hjá Stígamótum.  Vísir/Egill

Fleiri en einn hafa leitað til Stígamóta vegna Sr. Friðriks Friðrikssonar, stofnanda KFUM, KFUK, Vals og Hauka. Talskona Stígamóta segir að sagan hafi kennt okkur það að gerendur leiti ekki bara á eitt barn heldur séu þau oftast fleiri sem hafi verið brotið á. 

Fleiri en einn þolandi séra Friðriks Friðrikssonar hafa leitað til Stígamóta. Því greindi talskona Stígamóta, Drífa Snædal, frá í Kastljósi í kvöld.

Í samtali við Vísi segir Drífa að gerendur séu ekki sérstaklega skráðir niður hjá samtökunum en að hún hafi heyrt það frá ráðgjöfum Stígamóta að fleiri en einn þolandi hafi leitað til samtakanna vegna sr. Friðriks.

„Við höfum upplýsingar um að það séu fleiri en einn. En það er ekkert yfirlit eða tölfræði,“ segir Drífa.

Hún segir að þegar svona mál komi upp í umræðuna þá geti það haft þær afleiðingar að fleiri leita til Stígamóta en ella.

„Við eigum alveg von á því þegar svona mál eru í mikilli opinberri umræðu. Það má alveg gera ráð fyrir því að ef hann hefur verið að níðast á börnum þá er það ekki eitt. Það eru líklega fleiri. Sagan hefur kennt okkur það. Sérstaklega þar sem hann hafði ótakmarkað aðgengi að börnum. Hann valdi sér þannig starfsvettvang,“ segir Drífa.

Mikið hefur verið fjallað um málið í dag en fjallað er um kynferðisbrot Friðriks gegn einu barni í nýrri ævisögu hans sem er skrifuð af Guðmundi Magnússyni sagnfræðingi. Sr. Friðrik stofnaði KFUM, KFUK og íþróttafélögin Hauka og Val.

KFUM sendi frá sér yfirlýsingu um málið í dag þar sem þau sögðust ekki vilja breiða yfir sannleikann eða söguna. Á heimasíðu Vals segir að félagið fordæmi allt ofbeldi og að Hlíðarendi eigi að vera öruggur staður fyrir alla sem þangað koma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×