Innlent

„Þetta kemur auð­vitað ekkert á ó­vart“

Árni Sæberg skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Vísir/Ívar Fannar

Formaður Eflingar segir ekki koma á óvart að atvinnurekendur segi engin efni til launahækkana. Koma verði til móts við þau lægst launuðu og þannig vinna gegn verðbólgunni.

Niðurstöður nýlegrar könnunar meðal aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins benda til þess að atvinnurekendur telji svo gott sem engin efni til launahækkana þegar nýir kjarasamningar verða gerðir á næstunni. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það gamla sögu og nýja.

„Þetta kemur auðvitað ekkert á óvart, þetta er nákvæmlega það sama og heyrist alltaf þegar kjaraviðræður og kjarasamningar eru í nánd.“

Í sömu könnun kom í ljós að almenningur telur ekki líklegt að atvinnurekendur geti hækkað laun mikið. Sólveig Anna segir að Efling stefni fyrst og fremst að því að laun þeirra launalægstu verði hækkuð.

„Við viljum byggja á módeli lífskjarasamningsins. Það voru mjög farsælir og góðir samningar sem náðust árið 2019. Krónutölusamningar þar sem allir fá sömu krónutöluna í hækkun. Ég held og ég trúi að það muni nást sátt um þannig samninga,“ segir Sólveig Anna.

Vill langtímasamninga

Þá segir hún að vilji verkalýðshreyfingarinnar sé að kjarasamningar verði gerðir til lengri tíma og að samningar þar sem helst er komið til móts við þau launalægstu myndu stuðla að minni verðbólgu og lægra vaxtastigi.

„Skynsamlegasta og besta nálgunin á þessum tímum sem við lifum, í því efnahagsástandi sem er uppi, er að gera samninga sem lyfta fyrst og fremst upp þeim sem eru á lægstu laununum, sem augljóslega duga ekki til framfærslu. Þannig getur verkalýðshreyfingin sannarlega lagt sitt af mörkum til að ná hér niður vaxtastigi og byrja að hemja verðbólgubálið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×