Erlent

Bananaprins kjörinn forseti í Ekvador

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Daniel Noboa nýkjörinn forseti Ekvador og sonur ríkasta manns landsins.
Daniel Noboa nýkjörinn forseti Ekvador og sonur ríkasta manns landsins. Getty/Franklin Jacome

Bananaerfinginn Daniel Noboa var í gærkvöldi kjörinn forseti Ekvador og verður hann sá yngsti til að sinna embættinu í sögu landsins. Noboa hefur heitið því að taka á ofbeldisöldu sem ríður yfir landið af hörku og auka atvinnustig ungs fólks.

Noboa hafði betur gegn lögmanninum og vinstrikonunni Luisu González, sem fyrrverandi forseti landsins Rafael Correa valdi sem eftirmann sinn. Þegar búið var að telja 90 prósent atkvæða seint í gærkvöldi hafði Noboa 52,29 prósent atkvæða og González 47,71 prósent. 

González viðurkenndi í gærkvöldi sigur Noboa, sem skrifaði í færslu á Twitter að stundin væri söguleg. 

„Ekvadorískar fjölskyldur völdu framtíð landsins, þær völdu land sem er öruggt og sem býður upp á atvinnutækifæri,“ skrifaði Noboa í tístinu. 

Undanfarin misseri hefur ofbeldisglæpum fjölgað mikið í landinu, sem yfirvöld telja tengjast fíkniefnasmygli. Hvergi í Suður-Ameríku eru ofbeldisglæpir jafn tíðir og í Ekvador. 

Noboa er sonur ríkasta manns landsins, Álvaro Noboa, sem sjálfur hefur boðið sig fram til forseta fimm sinnum. Framboð Daniels Noboa var heldur óvænt og bættist hann seint við kapphlaupið en hann tilkynnti framboðið í ágúst. Noboa er sérstaklega vinsæll meðal kjósenda á aldrinum 18 til 29 ára, sem telja um þriðjung kjörgengra.

Eitt helsta áherslumál hans í kosningunum var að fjölga störfum og hefur hann lagt til skattaafslætti fyrir ný fyrirtæki og að draga erlenda fjárfesta til landsins. 

Þá hefur hann tekið harða afstöðu í glæpamálum og hefur meðal annars lagt til að koma verstu glæpamönnum landsins fyrir á bátum úti fyrir ströndum Ekvador. Þá hefur hann talað fyrir því að auka hernaðarviðveru við landamæri og strendur landsin, ekki síst til að stemma stigu við fíkniefnasmygli. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×