Viðskipti innlent

Ellert tekur við fjár­mála­sviði Ís­lands­banka

Atli Ísleifsson skrifar
Ellert Hlöðversson, Helga Dögg Aðalsteinsdóttir, Jón Árni Ólafsson, Sigurður Hreiðar Jónsson.
Ellert Hlöðversson, Helga Dögg Aðalsteinsdóttir, Jón Árni Ólafsson, Sigurður Hreiðar Jónsson. Íslandsbanki

Ráðið hefur verið í fjórar stöður stjórnenda hjá Íslandsbanka, framkvæmdastjóra Fjármálasviðs, forstöðumann verðbréfamiðlunar, forstöðumann framlínuþjónustu Einstaklingssviðs og útibússtjóra á Húsavík.

Í tilkynningu frá bankanum segir að nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans sé Ellert Hlöðversson. Hann tekur við stöðunni af Jóni Guðna Ómarssyni bankastjóra. 

„Ellert tók nýlega við sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar bankans, en var áður forstöðumaður verðbréfamiðlunar Íslandsbanka frá júní 2022 og þar áður verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf bankans. Hann hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði og hefur starfað hjá Íslandsbanka frá árinu 2010. Ellert er með B.Sc gráðu í rafmagnsverkfræði og M.Sc gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskóla Íslands auk þess að hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Ellert mun taka við starfi fjármálastjóra um næstu áramót.

Þá hefur Sigurður Hreiðar Jónsson verið ráðinn forstöðumaður verðbréfamiðlunar Íslandsbanka. Hann er með áratugareynslu af störfum á fjármála- og verðbréfamarkaði en ferilinn hóf hann 2003 hjá Búnaðarbankanum og svo Kaupþingi. Sigurður Hreiðar hefur starfað víða á fjármálamarkaði en kemur til Íslandsbanka frá Kviku banka og þar áður ACRO verðbréfum þar sem hann var einn stofnenda. Sigurður er með B.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess að hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Sigurður hefur þegar hafið störf hjá bankanum.

Nýr forstöðumaður framlínuþjónustu Einstaklingssviðs hjá Íslandsbanka er Jón Árni Ólafsson, en hann kemur til bankans frá Olís þar sem hann hafði starfað frá 2015, síðast sem sviðsstjóri smásölusviðs. Þar áður hefur Jón Árni starfað hjá Skeljungi, Ekortum, Arion og Spron. Hann er með B.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Tækniháskóla Íslands/HR og með M.Sc gráðu í forystu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Jón Árni mun hefja störf næstu mánaðamót.

Helga Dögg Aðalsteinsdóttir hefur svo verið ráðin í starf útibússtjóri Íslandsbanka á Húsavík. Hún var áður þjónustustjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga á Húsavík frá árinu 2018 ásamt því að gegna stöðu staðgengils sparisjóðsstjóra. Þar áður starfaði hún hjá Íslandsbanka á höfuðborgarsvæðinu og á námsárum sínum vann hún hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga, Spron á Seltjarnarnesi og Íslandsbanka á Húsavík. Helga Dögg er viðskiptafræðingur að mennt og með M.Sc. gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningu frá bankanum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×