Fótbolti

Biðla til Evrópuþjóða um að spila ekki gegn Rússum þrátt fyrir leyfi UEFA

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rússneska U17 ára landsliðið í knattspyrnu hefur fengið leyfir frá UEFA til að snúa til keppni á ný.
Rússneska U17 ára landsliðið í knattspyrnu hefur fengið leyfir frá UEFA til að snúa til keppni á ný. Vasile Mihai-Antonio/Getty Images

Úkraínska knattspyrnusambandið hefur beðið Evrópuþjóðir um að leika ekki gegn U17 ára landsliði Rússa þrátt fyrir að knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hafi gefið rússneska liðinu grænt ljós á að snúa aftur til keppni.

Rússnesk landslið hafa ekki mátt taka þátt í leikjum á vegum FIFA og UEFA undanfarna mánuði eftir innrás Rússa í Úkraínu. Í vikunni gaf UEFA þó grænt ljós á að U17 ára landslið Rússa gæti snúið aftur til keppni, en samkvæmt heimildamönnum BBC var ákvörðunin ekki samþykkt einróma innan evrópska sambandsins.

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, segir að ungum leikmönnum skuli ekki refsað fyrir gjörðir rússneskra yfirvalda, en eins og áður segir hefur úkraínska knattspyrnusambandið biðlað til annarra Evrópuþjóða um að leika ekki gegn rússneska liðinu.

Enska knattspyrnusambandið hefur nú þegar gefið upp að enska U17 ára landsliðið muni ekki leika gegn Rússum og sænska knattspyrnusambandið hefur gert slíkt hið sama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×