Erlent

Pól­verjar hætta vopna­sendingum til Úkraínu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Úkraínski herinn sækir nú fram gegn Rússum en ekkert verður af vopnasendingum frá Póllandi, að minnsta kosti eins og er.
Úkraínski herinn sækir nú fram gegn Rússum en ekkert verður af vopnasendingum frá Póllandi, að minnsta kosti eins og er. AP Photo/Mstyslav Chernov

Pólverjar hafa lýst því yfir að þeir séu hættir að sjá Úkraínumönnum fyrir vopnum í baráttu sinni við innrásarher Rússa.

Pólland hefur hingað til verið meðal helstu bandamanna Úkraínu undanfarið hefur deila um innflutning á korni magnast og vinaþjóðirnar deila nú hart hvor á aðra. Á þriðjudaginn var sendiherra Úkraínu kallaður á teppið í Póllandi vegna orða sem Selenskí Úkraínuforseti lét falla hjá Sameinuðu þjóðunum.

Forsetinn sagði þar að sumar þjóðir hefðu bara verið að þykjast í samstöðu sinni með Úkraínu. Pólsk stjórnvöld tóku þetta afar óstinnt upp og sögðust hafa staðið þétt við bakið á Úkraínu allt frá byrjun. Mateusz Morawiecki lýsti því svo yfir í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi að vopnasendingar yrðu stöðvaðar.

Þess í stað ætli Pólverjar að einbeita sér að því að efla vopnabúr sitt og nútímavæða pólska herinn. Deilan um kornið snýst um að Evrópusambandið hafði bannað frjálsan innflutning á korni til fimm landa í grennd við Úkraínu, til þess að vernda innlenda framleiðslu. Því banni hefur nú verið aflétt en Ungverjar, Slóvakar og Pólverjar hafa ákveðið að halda banninu áfram fyrir sitt leyti.

Þetta hefur hleypt illu blóði í Úkraínumenn sem hafa kært ákvörðunina til Alþjóðavipskiptastofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×