Innlent

Eld­gosin upp­haf elda á Reykja­nes­skaganum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Síðasta gos hófst við Litla-Hrút 10. júlí síðastliðinn. Síðast sást virkni í gígnum 5. ágúst og var goslokum lýst yfir tíu dögum seinna. 
Síðasta gos hófst við Litla-Hrút 10. júlí síðastliðinn. Síðast sást virkni í gígnum 5. ágúst og var goslokum lýst yfir tíu dögum seinna.  vísir/vilhelm

Enn og aftur mælist landris á Reykjanesskaga. Aflögunin er þó enn svo lítil að hún mælist ekki á gervitunglamyndum. Síðasta eldgosi lauk fyrir rúmum mánuði en stærsti skjálftinn á Reykjanesskaga frá goslokum var síðasta sunnudag. Hann var 3,8 að stærð. 

Á Reykjanesskaga er nú aftur merki um landris. Það kemur fram í umfjöllun á vef Veðurstofunnar og að landrisið sé á svipuðum stað og gosið í sumar, við Litla-Hrút. 

Skjálftahrina hófst á Reykjaneshrygg, um þrjátíu kílómetra suðvestur af Reykjanestá um kvöldmatarleytið í gær. Stærsti skjálftinn í hrinunni var um 3,4 klukkan rétt rúmlega sjö.

Á vef Veðurstofunnar segir að talið sé að eldgosin á Reykjanesskaga séu upphaf elda og hafa vísindamenn líkt þeim við Kröfluelda 1975-84 en þá rann hraun ofanjarðar níu sinnum á tímabilinu með tilheyrandi landrisi, -sigi og jarðskjálftum.

Í frétt Veðurstofunnar segir að aflögunin sem nú mælist sé enn of lítil til að hún sjáist á gervitunglamyndum og að líklegast sé um að ræða langtímaviðvörun.

„Land hefur tekið að rísa um leið og fyrri tveimur gosum lauk en eitthvað hægara en vísbendingar benda til nú. Síðasta gos hófst við Litla-Hrút 10. júlí síðastliðinn og síðast sást virkni í gígnum 5. ágúst og var goslokum lýst yfir 10 dögum síðar. Nú bendir til að um leið og gosinu lauk voru komin merki um áframhaldandi þenslu,“ segir í frétt Veðurstofunnar.

Þar kemur einnig fram að viðvarandi skjálftavirkni sé á Reykjanesskaganum en að hún afmarkist við vestasta hluta Reykjaness, Svartsengi, Fagradalsfjall og Kleifarvatn.

Stærsti jarðskjálfti frá goslokum var á sunnudag og var að stærð 3,8. Upptök hans voru 2,5 kílómetrum vestan við Kleifarvatn.


Tengdar fréttir

Af­lýsa hættu­stigi vegna gossins við Litla-Hrút

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákveðið að færa hættustig almannavarna vegna eldgossins sem hófst við Litla-Hrút niður á óvissustig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×