Fótbolti

Lífvörðurinn heimsfrægi bjargaði Messi frá aðdáanda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Yassine Chueko tekur á aðdáandanum sem ætlaði að kássast upp á Lionel Messi.
Yassine Chueko tekur á aðdáandanum sem ætlaði að kássast upp á Lionel Messi.

Yassine Chueko hefur öðlast heimsfrægð fyrir að gæta Lionels Messi eins og skugginn.

David Beckham, eigandi Inter Miami, fékk Chueko til að gæta Messis eftir að argentínski snillingurinn gekk í raðir félagsins. Chueko er fyrrverandi hermaður og tók þátt í stríðum Bandaríkjanna í Írak og Afganistan. Hann hefur þar að auki keppt í MMA, tækvondo og hnefaleikum.

Chueko fylgir Messi hvert fótspor og er alltaf á tánum. Það sást bersýnilega í leik Los Angeles og Inter Miami í gær.

Aðdáandi Messis klæddur treyju Barcelona hljóp þá inn á völlinn, í átt að Argentínumanninum og reyndi að faðma hann. Chueko brást snöggt við og stöðvaði aðdáandann með því að taka hann hálstaki.

Atvikið virtist ekki trufla Messi sem lagði upp tvö mörk í 1-3 sigri Inter Miami á meisturum Los Angeles. Messi hefur skorað ellefu mörk og gefið fimm stoðsendingar í ellefu leikjum með Inter Miami.

Messi trekkir að en Leikararnir Leonardo DiCaprio, Edward Norton, Will Ferrell, Tom Holland, Toby Maguire, Owen Wilson og Gerard Butler mættu á leikinn í Los Angeles í nótt ásamt Harry fyrrverandi Bretaprins og tónlistarfólkinu Selenu Gomez, Liam Gallagher og Nas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×