Erlent

Reyndi að brjótast út eins og fórnar­lamb hans

Árni Sæberg skrifar
Klefinn þar sem Zuberi hélt konunni.
Klefinn þar sem Zuberi hélt konunni. Alríkislögregla Bandaríkjanna/AP

Karlmaður, sem sakaður er um að hafa rænt konu og haldið henni fanginni í klefa á heimili hans í Oregon í Bandaríkjunum, reyndi að brjótast út úr fangelsi á fimmtudagskvöld. Lögregla gómaði manninn eftir að konunni tókst að brjóta niður hurð klefans með berum höndum. 

Greint var frá því í byrjun mánaðar að konu hefði tekist að flýja heimili Negasi Zuberi, 29 ára gamals fjölskylduföður, með því að berja niður hurð klefa sem hann hafði smíðað í bílskúrnum.

Hann þóttist vera lögreglumaður þegar hann rændi konunni í Seattle um miðjan júlí. Eftir að hafa bundið konuna á höndum og fótum flutti hann hana að heimili sínu í borginni Klamath Falls í Oregon-ríki, sem er í mörg hundruð kílómetra fjarlægð frá Seattle.

Hann er sagður hafa stöðvað á leiðinni til þess að brjóta kynferðislega á konunni.

„Þessari konu var rænt, nauðgað og hún læst inni í klefa úr múrsteinum. Lögreglan segir að hún hafi barið veggi klefans með berum höndum þar til að fór að blæða úr höndum hennar. Snögg viðbrögð hennar og lífsvilji gætu hafa bjargað öðrum konum frá sambærilegri martröð,“ var haft eftir Stephanie Shark, aðstoðaryfirlögregluþjón alríkislögreglunnar í Portland, í fréttatilkynningu.

Reyndi að leika sama leikinn

Zuberi var handtekinn og vistaður í fangelsinu í Jacksonsýslu í Oregon. Í tilkynningu frá lögreglunni í Jacksonsýslu segir að hann hafi reynt að brjóta glugga í klefa sínum til þess að brjótast út. 

Í frétt AP um málið segir að Zubari megi búast við því að ákæra fyrir tilraun til flótta bætist við ákærur fyrir kynferðisbrot og mannrán.

Þá hafi hann nú verið færður í gluggalausan klefa.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×