Erlent

Ind­verjar fyrstir til að lenda við suður­pól tunglsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Börn fylgjast með lendingu Chandrayaan-3 í skóla í Guwahati á Indlandi í morgun.
Börn fylgjast með lendingu Chandrayaan-3 í skóla í Guwahati á Indlandi í morgun. AP/Anupam Nath

Indverska geimfarið Chandrayaan-3 varð fyrsta manngerða farið til þess að lenda nærri suðurpól tunglsins í dag. Könnunarjeppi á að rannsaka jarðveg og steina á tunglinu, þar á meðal efnasamsetningu þeirra.

Mikil fagnarlæti brutust út í stjórnstöð leiðangursins í Bengalaru á sunnanverðu Indlandi þegar Chandrayaan-3 lenti á yfirborði tunglsins klukkan 6:04 að staðartíma í morgun, klukkan 0:34 að íslenskum tíma í nótt. Indverjar urðu þá aðeins fjórða þjóðin til þess að lenda geimfari á tunglinu. Bandaríkjamenn, Sovétmenn og Kínverjar höfðu áður unnið það afrek.

Suðurpóll tunglsins þykir sérstaklega spennandi þar sem þar er talið að sé að finna frosið vatn í eilífu myrkri í loftsteinagígum. Vatnið væri lykilauðlind fyrir framtíðarbækistöðvar mannkynsins á tunglinu.

Aðeins nokkrir dagar eru frá því að Luna-25, fyrsta tunglfar Rússa í hálfa öld, sem átti að lenda á suðurpólnum, brotlenti og fórst. Indverjar upplifðu sjálfir misheppnaðan tunglleiðangur árið 2019.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fylgdist með lendingunni í Suður-Afríku þar sem hann tekur þátt í BRICS-ráðstefnunni.

„Indland er núna á tunglinu. Indland hefur náð til suðurpóls tunglsins, engu öðru landi hefur tekist það. Við verðum vitni að sögunni,“ sagði Modi sigurreifur.


Tengdar fréttir

Skutu geimfari af stað til tunglsins í þriðja sinn

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Indlands (Isro) skutu í morgun geimfari af stað til tunglsins. Farið nefnist Chandrayaan en þetta er í þriðja sinn Indverjar skjóta tunglfari út í geim en þeir vilja verða fyrstir til að lenda fari á suðurpól tunglsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×