Erlent

Rússar sagðir hafa ráðist á korn­geymslur við Dóná

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rússar ráðast á korngeymslur Úkraínumanna en þessi mynd var tekin eftir árás 16. ágúst síðastliðinn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rússar ráðast á korngeymslur Úkraínumanna en þessi mynd var tekin eftir árás 16. ágúst síðastliðinn. epa

Rússar réðust á korngeymslur og aðra innviði við Dóná í Úkraínu í nótt. Samkvæmt þarlendum yfirvöldum kviknaði eldur í að minnsta kosti einni byggingu.

Úkraínumenn segjast hafa skotið niður ellefu af tuttugu drónum sem Rússar notuðu til árása í nótt. Að sögn Oleh Kiper, héraðsstjóra í Odessa, stóð árásin yfir í um þrjá tíma. Hann segir á Telegram að því miður hafi Rússum tekist að vinna skemmdir á geymslum þar sem kornbirgðir voru geymdar.

Hafnir Úkraínumanna við Dóná eru nú helsta leið kornvöru frá Úkraínu, eftir að Rússar gengu frá samkomulagi um öruggan útflutning korns um Svartahaf.

Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu, segir loftvarnir Rússa hafa tekið niður þrjá dróna yfir borginni í morgun. Samkvæmt AFP var nóttin sú sjötta í röð þar sem Úkraínumenn freistuðu þess að gera drónaárásir á höfuðborgina.

Hávær sprenging heyrðist í miðborginni í morgun, skömmu eftir að flugi var frestað á flugvöllum borgarinnar. Einn dróni er sagður hafa lent á byggingu sem verið var að reisa en samkvæmt varnarmálaráðuneytinu sakaði engan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×