Erlent

Rekja gróður­eldana á Tenerife til vís­vitandi í­kveikju

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar á Tenerife fylgjast með húsum sínum í bjarma gróðureldanna sem hafa geisað á eyjunum frá því í síðustu viku.
Íbúar á Tenerife fylgjast með húsum sínum í bjarma gróðureldanna sem hafa geisað á eyjunum frá því í síðustu viku. AP/Arturo Rodriguez

Lögreglan á Tenerife telur að vísvitandi íkveikja hafi komið stjórnlausum gróðureldum sem geisa enn á eyjunni af stað. Þúsundir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín og dvalarstaði vegna eldanna.

Fernando Clavijo, forseti sjálfstjórnarhéraðs Kanaríeyja, sagði í gær að lögreglan rannsakaði íkveikjuna. Hann greindi ekki frá því hvort að nokkur hefði verið handtekinn.

Eldarnir hafa nú geisað stjórnlaust í fimm daga og hafa um 11.600 hektarar furuskógar og óræktaðs svæðis orðið þeim að bráð. Fleiri en tólf þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín. 

Ekkert mann- eða eignatjón hefur enn orðið en eldarnir ógna ellefu þorpum í klettóttum fjallshlíðum sem slökkviliðsmenn eiga erfitt með að komast að, að sögn AP-fréttastofunnar.

Um fjögurhundruð slökkvliliðsmenn glíma við eldana studdir 23 þyrlum og flugvélum sem varpa vatni á eldana úr lofti. Rosa Dávila, forseti bæjarráðs Tenerife, segir það slökkviliðsmönnunum að þakka að engin hús hafi brunnið enn sem komið er.

Yfirvöld þakka slökkviliðsmönnum að gróðureldarnir hafi ekki enn náð að brenna hús á eyjunni.AP/Arturo Rodriguez

Úrkoma undir meðaltali undanfarin ár

Slökkviliðsmönnum varð nokkuð ágengt þegar veðuraðstæður skánuðu á aðfararnótt sunnudags. Spáð er um þrjátíu stiga hita á Tenerife í vikunni á sama tíma og enn ein hitabylgjan gengur yfir meginland Spánar með um fjörutíu stiga hita á miðvikudag og fimmtudag.

Viðvarandi þurrkur hefur verið á Kanaríeyjum undanfarin ár. Úrkoma þar hefur verið undir meðaltali og er það rakið til breytts úrkomumynsturs vegna loftslagsbreytinga af völdum manna.

Um 75.000 hektarar lands hafa brunnið í gróðureldum á Spáni það sem af er ári. Eldarnir á Spáni eru þeir umfangsmestu í nokkru Evrópusambandsríki í ár. Þar af brunnu um 4.500 hektarar í eldum á La Palma, nágrannaeyju Tenerife, í síðasta mánuði. Um tvö þúsund manns þurftu að flýja heimili sín vegna þeirra.

Um fjörutíu prósent alls gróðurlendis sem brann í Evrópusambandsríkjum í fyrra var á Spáni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×