Erlent

Um 300 til­vik á tólf mánuðum þar sem á­rekstri var naum­lega forðað

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Öll stærstu flugfélög Bandaríkjanna koma við sögu í rannsókn New York Times.
Öll stærstu flugfélög Bandaríkjanna koma við sögu í rannsókn New York Times. Getty/Joe Raedle

Rannsókn New York Times hefur leitt í ljós að í hverri viku eiga sér stað nokkur tilvik þar sem flugvélar lenda næstum í árekstrum nærri eða á flugvöllum í Bandaríkjunum. Fjörtíu og sex slík atvik áttu sér stað í júlí og um 300 á síðustu tólf mánuðum.

Rannsóknin byggir meðal annars á gagnagrunni NASA, opinberum rannsóknarskýrslum og viðtölum við um fimmtíu flugmenn, flugumferðarstjóra og embættismenn. Oftast er um að ræða mannleg mistök en viðmælendur blaðsins sögðu skort á flugumferðastjórum og mikið álag stóran áhættuþátt.

Slysin hafa ekki verið bundin við ákveðna flugvelli frekar en aðra og hafa öll stærstu flugfélög Bandaríkjanna komið við sögu.

Flugumferðaryfirvöld í Bandaríkjunum segja kerfið þarlendis eitt það öruggasta í heiminum og meira en áratugur er liðinn frá því að fólk lést í flugslysi vestanhafs, þar sem um var að ræða farþegaflugvél. Flugmenn og flugumferðastjórar segja þó gerast svo oft að vélar lenda næstum því saman, til dæmis við flugtak eða í lendingu, að það sé aðeins tímaspursmál þar til stórslys verður.

Vandinn er margþættur en þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar frá öryggisaðilum hafa fæstir flugvellir tekið í notkun búnað til að varna árekstrum á flugbrautunum. Þá uppfylltu aðeins þrír af 313 stærstu flugvöllum landsins markmið flugmálayfirvalda og stéttarfélags flugumferðarstjóra um mönnun í flugturnum.

Samkvæmt umfjöllun New York Times búa þannig margir flugumferðastjórar við það að þurfa að starfa sex daga vikunnar, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir fjölda opinberra stofnana um að vinnufyrirkomulagið sé til þess fallandi að þeir geti ekki sinnt störfum sínum sem skyldi.

Hér má finna ítarlega umfjöllun New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×