Innlent

Borgar­stjóri spáir frá­bærri stemningu á Menningar­nótt

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Dagur segir mikilvægt að fjölskyldur séu saman á hátíðinni.
Dagur segir mikilvægt að fjölskyldur séu saman á hátíðinni. Vísir/Vilhelm

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur Menningarnótt í hádeginu og spáir frábærri stemningu á hátíðinni. Hann segir mikilvægt að fjölskyldur séu saman á hátíðinni og að fólk láti koma sér á óvart.

Dagur segir að allir geti fundið eitthvað að sjá, heyra, smakka og njóta fram á nótt á Menningarnótt í ár. Hann setur hátíðina á Kjarvalsstöðum í hádeginu og henni lýkur með stórglæsilegri flugeldasýningu klukkan 23:00 að vanda.

„Ég fann það í morgun þegar ég var að starta Reykjavíkurmaraþoninu. Það er svo mikil blíða og gott veður og bros á hverju andliti. Það plús fjögur hundruð viðburðir og atriði út um allt bókstaflega,“ segir Dagur sem var að pússa vöfflujárnið þegar fréttamaður náði af honum tali í morgun. En í ár verður endurvakinn sá siður að íbúar Þingholtanna bjóði gestum og gangandi heim í vöfflur.

Eyjamenn heiðursgestir



Eyjamenn eru heiðursgestir á Menningarnótt en það er vegna 50 ára goslokaafmælisins í ár.

„Ég fékk þá hugmynd að það færi gríðarlega vel á þessu,“ segir Dagur. „Þetta er alveg ótrúleg saga, bæði gosið og að tæplega fimm þúsund manna bæjarfélag fluttist yfir nótt með 76 skipum. Síðan voru opnuð hér skólar og heimili til að taka á móti öllum hópnum.“

Vestmannaeyjar séu mikill vinabær Reykjavíkur og að borgarbúar vilji sína gestrisni á Menningarnótt.

Fjölskyldur séu saman

Dagur segir einnig mikilvægt að fjölskyldur séu saman á hátíðinni.

„Við viljum ekki að unglingar verði eftir þegar mamma og pabbi eru farin heim heldur að fólk fylgist að og muni að láta koma sér á óvart. Fari og skoði Reykjavík og umbreytingarnar sem hafa orðið í borginni. Þessa spennandi uppbyggingu sem margir hafa heyrt um en kannski ekki séð,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×