Erlent

Vill að tali­banar verði sóttir til saka fyrir brot á rétti stúlkna

Kjartan Kjartansson skrifar
Gordon Brown, sendifulltrí SÞ í menntamálum og fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Gordon Brown, sendifulltrí SÞ í menntamálum og fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AP/Bebeto Matthews

Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í menntamálum segir að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn ætti að sækja talibana til saka fyrir að banna stúlkum að mennta sig og stunda vinnu. Það telur hann glæp gegn mannkyninu.

Talibanar hrifsuðu völdin í Afganistan fyrir tveimur árum. Þeir hafa síðan framfylgt strangri túlkun á íslömskum sjaríalögum, Samkvæmt henni er stúlkum bannað að mennta sig frekar eftir að grunnskólanámi lýkur. Konum er jafnframt bannað að vinna flest störf.

Gordon Brown, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í menntamálum, fordæmdi talibanastjórnina á blaðamannafundi í dag. Sakaði hann þá um að bera ábyrgð á „smánarlegustu, grimmdarlegustu og óverjandi brotum á réttindum kvenna og stúlkna í heiminum í dag“.

Sagðist Brown hafa sent Karim Khan, saksóknara við Alþjóðlega sakamáladómstólinn, lögfræðiálit þess efnis að mannréttindabrotin á afgönskum konum og stúlkum ættu að teljast glæpur gegn mannkyninu. Dómstóllinn ætti að sækja talibana til saka fyrir þau.

Þá hvatti Brown ríki þar sem múslimar eru í meirihluta til þess að senda sendinefnd klerka til Kandahar, heimaborgar Hibatullah Akhundzada, æðsta leiðtoga talibana, til þess að gera honum ljóst að bann við menntun kvenna og atvinnu eigi sér enga stoð í Kóraninum og íslam.

Talibanar hafa þó látið gagnrýni á stöðu kvenna í Afganistan sér sem vind um eyru þjóta. Zabihullah Mujahid, talsmaður talibana, sagði AP-fréttastofunni að engar breytingar væru í vændum. Stjórn þeirra væri jafnframt komin til að vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×