Umfjöllun: Zrinjski - Breiðablik 6-2 | Blikar niðurlægðir og þurfa kraftaverk á Kópavogsvelli

Andri Már Eggertsson skrifar
blikar hulda margrét
VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Blikar sáu ekki til sólar gegn Zrinjski Mostar. Heimamenn komust snemma yfir og fylgdu því eftir með fjórum mörkum. Eftir 40 mínútur var staðan 5-0 og Blikar manni færri. Gestirnir gerðu tvö mörk í seinni hálfleik og niðurstaðan 6-2 sigur Zrinjski.

Heimamenn brutu ísinn þegar innan við tvær mínútur voru liðnar af leiknum. Mario Cuze átti sprett á hægri kantinum þar sem vörn Blika var galopinn og Cuzen renndi boltanum á Tomislav Kis sem tók skotið í fyrsta og skoraði. Martraða byrjun fyrir Breiðablik og minnti á heimaleikinn gegn FC Kaupmannahöfn.

Eftir mark Zrinjski datt leikurinn niður í tæplega átján mínútur en síðan fóru heimamenn að herja á mark Blika. Anton Ari gaf boltann beint á Mario Cuze sem fékk dauðafæri en skaut í slána en sótti þó hornspyrnu.

Tomislav Kis tók hornspyrnuna sem fór beint á Nemanja Bilbija sem átti skalla sem Anton Ari varði en Matija Malekinusic var fyrstur á boltann og skoraði.

Heimamenn fengu enn meira blóð á tennurnar og fóru að pressa en meira á Blika. Viktor Karl tapaði boltanum klaufalega á síðasta þriðjungi sem varð til þess að Bilbija renndi boltanum á Kis sem skoraði sitt annað mark.

Tæplega mínútu eftir að hafa gefið mark fékk Viktor Karl sitt annað gula spjald og hafði þar með lokið leik.

Framherjinn, Nemanja Bilbija, var síðan næstur á mælendaskrá og gerði fjórða mark heimamanna. Malekinusic átti frábæra sendingu beint á kollinn á Bilbija sem skoraði.

Malekinusic bætti síðan við sínu öðru marki þegar Anton Ari varði skalla frá Kis beint á Malekinusic og hann þurfti bara að pota honum í markið. Versta martröð Blika varð að veruleika þar sem þeir lentu manni færri og voru fimm mörkum undir eftir 40 mínútur í Bosníu.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan var 5-0 fyrir heimamönnum.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik bætti Antonio Ivancic við sjötta marki heimamanna. Damir átti lélega hreinsun sem fór beint á Ivancic sem átti laglegt skot sem endaði í markinu.

Anton Logi Lúðvíksson minnkaði muninn þegar Klæmint Olsen renndi boltanum í gegn á Anton sem lyfti boltanum afar smekklega yfir  Marko Maric, markmann Zrinjski.

Klæmint lagði upp sitt annað mark eftir að hafa komið inn á í hálfleik. Klæmint átti skalla beint á Gísla Eyjólfsson sem þrumaði boltanum í markið og skoraði annað mark Breiðabliks.

Af hverju vann Zrinjski Mostar?

Breiðablik kveikti í einvíginu með ömurlegum átján mínútna kafla í fyrri hálfleik. Þar skoruðu heimamenn fjögur mörk og Viktor Karl nældi sér í tvö gul spjöld í þokkabót.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er hægt að nefna marga leikmenn hjá heimamönnum. Matija Malekinusic skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu. Kis og Bilbija voru einnig hættulegir. Kis skoraði tvö mörk og Bilbija skoraði og gaf eina stoðsendingu.

Hvað gekk illa?

Líkt og í fyrri leiknum gegn FC Kaupmannahöfn byrjaði Breiðablik á að fá á sig ódýrt mark á fyrstu 120 sekúndunum. Síðan tók við átján mínútna hörmung þar sem heimamenn skoruðu fjögur mörk.

Annað og fimmta mark Zrinjski kom eftir að Anton varði en þar vantaði Blika til að hafa fyrir því að koma hættunni frá og heimamenn voru fyrstir að ná frákastinu og skoruðu og skoruðu. Þriðja markið kom eftir að Viktor Karl tapaði boltanum afar klaufalega.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast á Kópavogsvelli á fimmtudaginn eftir viku klukkan 17:30. Í millitíðinni fer Breiðablik norður og mætir KA á sunnudaginn klukkan 16:00.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira