Erlent

Upp­rættu „tækni­lega fágaðan“ barna­níðs­hring eftir morð á full­trúum FBI

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Einn handteknu hafði sankað að sér um fimm terabætum af barnaníðsefni.
Einn handteknu hafði sankað að sér um fimm terabætum af barnaníðsefni. AP/Ástralska alríkislögreglan

Lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum og Ástralíu handtóku 98 einstaklinga og 45 hafa þegar verið dæmdir í tengslum við umfangsmikinn barnaníðshring. Einstaklingarnir notuðu djúpvefinn til að skiptast á efni en meðal þeirra voru þó nokkrir sérfræðingar í forritun og upplýsingatækni.

Rannsókn málsins komst í hámæli eftir að tveir alríkislögreglumenn voru myrtir þegar þeir freistuðu þess að framkvæma leit á heimili grunaðs manns. David L. Hubner skaut Daniel Alfin og Lauru Schwartzenberger til bana og tók síðan eigið líf í Sunrise í Flórída árið 2021.

Þetta var í fyrsta sinn í þrettán ár sem alríkislögreglumaður var myrtur við störf.

Af einstaklingunum 98 voru 79 handteknir í Bandaríkjunum og 43 fundir sekir. Nítján voru handteknir í Ástralíu og tveir dæmdir. Þá var þrettán börnum bjargað. Sum þeirra höfðu verið misnotuð en önnur voru fjarlægð af heimilum sínum af öryggisástæðum.

Yfirvöld hafa sagt um að ræða afar „tæknilega fágaðan“ hóp, sem deildi efni á djúpvefnum. Rannsóknin var af þessum sökum flókin en hópurinn er sagður hafa gengið mjög langt í að fela slóð sína og meðal annars notast við háþróaða dulkóðun.

Meðal handteknu voru bæði einstaklingar sem deildu og framleiddu efni. Þá eru nokkrir þeirra sagðir hafa verið að brjóta af sér í meira en áratug. Einn Ástralinn var opinber starfsmaður og annar játaði að hafa undir höndum um það bil fimm terabæt af barnaníðsefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×