Fótbolti

Ajax hrifsar Carlos Borges úr klóm West Ham

Siggeir Ævarsson skrifar
Carlos Borges fagnar einu af mörkum sínum á síðasta tímabili með varaliði Manchester City
Carlos Borges fagnar einu af mörkum sínum á síðasta tímabili með varaliði Manchester City Vísir/Getty

Hinn efnilegi Carlos Borges verður leikmaður Ajax á næsta tímabili en West Ham virðist hafa klúðrað kaupunum á honum algjörlega. Í tæpar tvær vikur tókst West Ham ekki að reka endahnút á félagskiptin.

Þann 20. júlí bárust fréttir af félagskiptum Borges til West Ham og var hann sagður hafa hafnað Brighton, Borussia Dortmund og Eintracht Frankfurt og valið West Ham. Kaupverðið var sagt 14 milljónir punda en City sömdu um forkaupsrétt til baka á Borges fyrir 40 milljónir.

Síðan þá hafa stuðningsmenn West Ham beðið með eftirvæntingu eftir staðfestingu á félagaskiptunum sem aldrei komu og nú rétt áðan staðfesti fótboltavéfréttin Fabrizio Romano að Ajax væru búnir að „ræna“ leikmanninum.

Borges, sem er fæddur árið 2004 í Portúgal og hefur leikið með yngri landsliðum landsins, þykir mikið efni en hann hefur þó ekki enn þreytt frumraun sína með City í Úrvalsdeildinni en hann hefur verið í herbúðum liðsins síðan 2015.

Á síðasta tímabili lék hann 35 leiki með varaliði félagins, skoraði í þeim 22 mörk og gaf tólf stoðsendingar að auki. 

Þessar fréttir eru eins og blaut tuska í andlit stuðningsmanna West Ham sem bíða með öndina í hálsinum eftir því að stjórn félagsins styrki liðið og eyði einhverjum af þeim 105 milljónum sem félagið fékk fyrir sölua á Declan Rice.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×