Viðskipti innlent

Lands­réttur fellst á kröfu Björg­ólfs Thors um van­hæfi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. Vísir/Vilhelm

Landsréttur telur Jón Arnar Baldurs vanhæfan til þess að sitja sem sérfróður meðdómsmaður í hópmálsókn hluthafa Landsbankans gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Rétturinn fellst því á kröfu Björgólfs Thors sem krafðist þess að hann myndi víkja vegna tengsla við endurskoðunarfyrirtæki.

Landsréttur hnekkir því niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði áður hafnað kröfu Björgólfs, þar sem Jón Arnar hefði ekki hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins. Hafði Reimar Pétursson, lögmaður Björgólfs, sett kröfuna fram vegna þess að Jón Arnar, sem er endurskoðandi, hafði aðkomu að málsvörn endurskoðunarfyrirtækisins Price Waterhouse Coopers (PwC) í lögsókn slitabús Landsbankans.

Sagði Reimar að Jón Arnar hefði veitt PwC ólögskyldar leiðbeiningar vegna atriða sem varði sakarefni hópmálsóknarinnar. Óheppilegt væri ef það kæmi upp í aðalmeðferð málsins. Einnig að Jón Arnar hefði verið yfirmaður eftirlits með beitingu IFRS reikningsskilastaðla hjá ársreikningaskrá.

Ekki talið útilokað að Jón hefði þegar myndað sér skoðun

Í niðurstöðu Landsréttar vegna beiðni Björgólfs kemur fram að ekki hefði verið talið útilokað að reyna myndi á störf PwC og áritun endurskoðenda þess á reikninga bankans við úrlausn málsins.

Því telur Landsréttur ekki væri hægt að útiloka að Jón Arnar hefði við aðstoð og ráðgjöf við málsvörn Price Waterhouse í máli slitastjórnar Landsbankans gegn félaginu vegna endurskoðunar þess á reikningum bankans þegar myndað sér skoðun á reikningsskilum bankans.

Í ljósi aðkomu og ráðgjöf Jóns í tengslum við málsvörn PwC sem varðaði endurskoðun bankans og áritun ársreikninga var talið að draga mætti með réttu í efa óhlutdrægni hans við úrlausn málsins. Hið sama ætti við um starf hans sem yfirmanns eftirlits með beitingu alþjóðlegra reikningsstaðla hjá ársreikningaskrá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×