Fótbolti

Sjáðu markið: Messi tryggði sigurinn með auka­spyrnu í upp­bótar­tíma

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Messi fagnar sínu fyrsta marki í treyju Miami.
Messi fagnar sínu fyrsta marki í treyju Miami. Arturo Jimenez/Getty Images

Það tók Lionel Messi ekki langan tíma að skora sitt fyrsta mark fyrir Inter Miami. Það var einkar glæsilegt en það kom úr aukaspyrnu í uppbótartíma þegar liðið vann 2-1 sigur á Cruz Azul frá Mexíkó í deildarbikarnum, keppni sem inniheldur bæði lið úr MLS og efstu deild í Mexíkó.

Fyrsti leikur Messi vakti athygli áður en flautað var til leiks. LeBron James, einn besti körfuboltamaður heims, var í stúkunni ásamt tennisgoðsögninni Serenu Williams og raunveruleikastjörnunni Kim Kardashian.

Hvað Messi varðar þá hóf hann leik á bekknum en það kom ekki að sök þar sem Miami komst 1-0 yfir í fyrri hálfleik. Gestirnir jöfnuðu metin hins vegar metin aðeins tíu mínútum eftir að Messi kom inn af bekknum.

Argentínumaðurinn lét ekki bjóða sér það og virtist hafa lagt upp sigurmarkið á 89. mínútu en markið dæmt af vegna rangstöðu. Í uppbótartíma fékk Messi hins vegar aukaspyrnu og það var ekki að spyrja að því. Boltinn flaug yfir vegginn og í netið, staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur leiksins.

„Ég vissi að ég yrði að skora, þetta var síðasta spyrna leiksins og ég vildi ekki að leikurinn myndi enda í vítaspyrnukeppni,“ sagði Messi með hjálp túlks að leik loknum. Lokatölur í fyrsta leik Messi fyrir Miami 2-1 og má búast við því að Argentínumaðurinn tryggi liðinu fleiri sigra á komandi vikum og mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×