Innlent

Vilja færa höfuð­stöðvar Lands­virkjunar til Hellu

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Í höfuðstöðvunum starfa um 180 manns en á Hellu búa innan við 900.
Í höfuðstöðvunum starfa um 180 manns en á Hellu búa innan við 900.

Byggðarráð Rangárþings ytra hefur sent áskorun á stjórn Landsvirkjunar, ráðherra og þingmenn að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsvirkjunar á Hellu. Landsvirkjun flytur nú úr mygluðu húsnæði á Háaleitisbraut.

„Við erum búin að henda þessu út í kosmósið,“ segir Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri Rangárþings ytra. „Þessi starfsemi getur verið hvar sem er og Hella er í hjarta orkuvinnslu á svæði Landsvirkjunar á Suðurlandi. Því svæði sem er í mestri uppbyggingu í framtíðinni.“

Í fyrrahaust fannst mygla í húsnæði Landsvirkjunar við Háaleitisbraut 68. Þegar málið var rannsakað frekar kom í ljós að umfangið var töluvert og var starfsemin því flutt úr húsinu í skrifstofuhúsnæði víðs vegar í Reykjavík, svo sem í Grósku og á Hafnartorgi. Þann 1. júlí var húsnæðinu við Háaleitisbraut lokað.

Höfuðstöðvarnar hafa nú verið fluttar tímabundið í Katrínartún 2 og fyrstu starfsmennirnir eru komnir þangað. Alls starfa um 180 starfsmenn í höfuðstöðvunum.

„Það er mikils virði að tímabundin lausn hafi fundist á húsnæðismálum Landsvirkjunar,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri í tilkynningu þann 30. júní. „En nú þarf einfaldlega að meta hvort borgi sig að gera endurbætur á gamla húsnæðinu eða hvort finna þurfi nýtt framtíðarhúsnæði fyrir fyrirtækið.“ Starfsemin þarf 5 til 6 þúsund fermetra rými.

„Hver vegna ekki?“

„Hver vegna ekki?“ segir Jón aðspurður um hvers vegna ætti að flytja höfuðstöðvarnar á Hellu. En þar búa innan við 900 manns og innan við 1.900 í sveitarfélaginu öllu.

„Orkufyrirtæki eru yfirleitt með sínar höfuðstöðvar þar sem orkan er framleidd. Þarna verða verðmætin til. Þarna eru verðmætu störfin,“ segir Jón og nefnir að bærinn Hella sé ekki ein undir heldur Suðurlandið allt. Þá sé Hella svo gott sem að verða úthverfi frá höfuðborgarsvæðinu. „Suðurlandið er með allt sem þarf til að hýsa aðalstarfsemi Landsvirkjunar,“ segir hann.

Þingmenn tekið vel í erindið

Hugmyndin er ekki ný af nálinni. Hún var meðal annars sett fram sem bókun í orkunýtingarstefnu Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, SASS, árið 2017.

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri Rangárþings ytra.Magnús Hlynur

Byggðarráð Rangárþings ítrekaði þetta fyrir skemmstu. Í bókun þess segir:

„Byggðarráð Rangárþings ytra beinir því til stjórnar Landsvirkjunar að skoðað verði að höfuðstöðvar Landsvirkjunar verði fluttar á Hellu að hluta eða öllu leyti. Fyrirtækið er í eigu þjóðarinnar allrar og það á ekki að vera náttúrulögmál að höfuðstöðvar fyrirtækisins séu í Reykjavík. Slík framkvæmd væri til þess fallin að nærsamfélagið njóti betur auðlinda sinna þar sem um 60% af framleiðslu fyrirtækisins verður til á Suðurlandi. Einnig væri þessi aðgerð í takt við orkunýtingarstefnu SASS 2017-2030.“

Var hún samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að senda áskorun til Landsvirkjunar og annarra sem málið varða.

Jón segir að áskorunin hafi nú þegar verið send á stjórn Landsvirkjunar. Einnig Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis- og orkumálaráðherra og þingmenn. Hann segir að nokkrir þingmenn hafi þegar tekið vel í áskorunina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×