Erlent

Sátt náðst um miska­bætur til handa fjöl­skyldu Beach

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Alex Murdaugh átti bátinn en Paul var ölvaður undir stýri þegar hann ók á brúarstólpa með þeim afleiðingum að Beach lést.
Alex Murdaugh átti bátinn en Paul var ölvaður undir stýri þegar hann ók á brúarstólpa með þeim afleiðingum að Beach lést. Facebook

Sátt hefur náðst um miskabætur til handa fjölskyldu Mallory Beach og annarra ungmenna sem voru um borð í bát í eigu Alex Murdaugh sem ekið var á brúarstólpa árið 2019. Murdaugh var nýlega fundinn sekur um að myrða eiginkonu sína og yngri son, Paul, sem var við stýrið á bátnum.

Beach, sem var 19 ára, lést í slysinu.

Fjölskylda Beach fær 15 milljónir dala í sinn hlut og ungmennin fjögur skipta þremur milljónum á milli sín. Málið var höfðað gegn Alex Murdaugh og versluninni sem seldi þeim áfengi áður en þau sigldu úr höfn.

Enn á eftir að ákveða hversu  háar bætur Murdaugh mun þurfa að greiða.

Paul er sagður hafa verið drukkinn þegar slysið átti sér stað en hann notaði persónuskilríki eldri bróður síns til að greiða fyrir áfengið fyrir sig og félagana, sem var keypt í verslun í eigu Parker's Corporation.

Fjölskylda Beach sagðist í yfirlýsingu vona að sáttin sendi skýr skilaboð til fyrirtækja á borð við Parker's að selja ekki áfengi til ungmenna undir lögaldri.

Eins og áður sagði var Alex Murdaugh fundinn sekur um að myrða Paul og eiginkonu sína Margaret árið 2021 en það er kenning saksóknara að tilgangurinn hafi verið að afla Murdaugh samúðar og beina athygli frá fjárhagslegum óförum hans.

Þegar Paul var myrtur átti hann yfir höfði sér ákærður vegna bátaslyssins en hann var meðal annars sakaður um að hafa valdið dauða Beach með því að aka bátnum undir áhrifum áfengis. Hann hafði lýst sig saklausan.

Allir fjórir sem lifðu slysið sögðu Paul hafa verið við stýrið en í kjölfar slyssins mældist áfengismagn í blóði hans langt yfir löglegum viðmiðum. 

Rannsókn stendur enn yfir á tveimur dauðsföllum sem yfirvöld ákváðu að athuga betur eftir að Murdaugh var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða son sinn og eiginkonu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×