Erlent

Skutu geimfari af stað til tunglsins í þriðja sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Geimfarið Chandrayaan-3 á leið til tunglsins.
Geimfarið Chandrayaan-3 á leið til tunglsins. AP/Aijaz Rahi

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Indlands (Isro) skutu í morgun geimfari af stað til tunglsins. Farið nefnist Chandrayaan en þetta er í þriðja sinn Indverjar skjóta tunglfari út í geim en þeir vilja verða fyrstir til að lenda fari á suðurpól tunglsins.

Um borð í Chandrayaan-3 er gervihnöttur, lendingarfar og dróni og stendur til að reyna að lenda farinu og drónanum 23. eða 24. ágúst. Takist það yrðu Indverjar þeir fjórðu til að takast lending af þessu tagi á tunglinu, á eftir Bandaríkjunum, Sovétríkjunum og Kína.

Í frétt BBC segir að þúsundir hafi fylgst með upphafi ferðar Chandrayaan frá skotpallinum og mikil fagnaðarlæti hafi brotist út þegar eldflaugin tók á loft.

Þrettán ár eru liðin frá því Chandrayaan-1 var skotið til tunglsins, en það geimfar var notað til rannsókna á sporbraut. Chandrayaan-2 var skotið til tunglsins árið 2019 en þá var reynt að lenda lendingarfarinu Vikram. Sú lending misheppnaðist þó og lendingarfarið brotlenti.

Geimfarið verður á braut um jörðina og mun á endanum nota þyngdarkraft jarðarinnar til að fljúga til tunglsins.

Lendingarfar Chandrayaan-3 kallast einnig Vikram en er um eitt og hálft tonn að þyngd. Undir því er 26 kílóa þjarki sem heitir Pragyaan en það þýðir viska á sanskrít. Þjarkan á að nota til að safna gögnum af yfirborði tunglsins og senda þau aftur til jarðarinnar.

Suðurpóll tunglsins hefur lítið verið rannsakaður. Stór hluti svæðisins er hulinn skugga og þykir þess vegna mögulegt að þar megi finna ís í djúpum gígum á yfirborðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×