Enski boltinn

Manchester United og Barcelona sektuð vegna brota á fjár­hags­reglum UEFA

Smári Jökull Jónsson skrifar
Manchester United fékk sekt frá UEFA.
Manchester United fékk sekt frá UEFA. Vísir/Getty

Manchester United og Barcelona fengu í morgun sekt frá evrópska knattspyrnusambandinu. Félögin brutu gegn hinum margfrægu fjárhagsreglum sambandsins á síðasta ári.

Fjárhagsreglur UEFA hafa verið við lýði í nokkur ár en þær voru settar til að reyna að koma í veg fyrir að lið skiluðu stórfelldi tapi ár eftir ár.

Tilkynning UEFA um sektir United og Barcelona var send út í morgun en þær eru tilkomnar vegna brota á tímabilinu 2022-23. 

United er sektað fyrir minniháttar brot en félagið skilaði meira tapi á síðasta fjárhagsári en lög UEFA leyfa. 

„Þó við séum svekkt með niðurstöðuna þá samþykkir Manchester United þessa sekt fyrir það sem UEFA telur vera minniháttar tæknilegt brot á fjárhagsreglum sem þá voru í gildi,“ segir í yfirlýsingu Manchester United.

Í yfirlýsingu United kemur fram að félagið hafi tapað miklum fjármunum vegna kórónuveirufaraldursins en tekur jafnframt fram að sölutölur séu jákvæðar fyrir komandi tímabil.

Sekt Barcelona er tilkomin vegna þess að félagið gaf rangar upplýsingar vegna sölu á eignum félagsins. Sekt United hljóðar upp á 300.000 pund en Barcelona þarf að borga UEFA 500.000 pund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×