Innlent

Segist ekki hafa gert sér grein fyrir aldri Kólos­seum

Atli Ísleifsson skrifar
Ivan Dimitrov er 27 ára fitness-þjálfari frá Bristol. Hann rataði í fréttirnar eftir að hafa skorið „Ivan + Haley 23“ á einn vegg Kólosseum.
Ivan Dimitrov er 27 ára fitness-þjálfari frá Bristol. Hann rataði í fréttirnar eftir að hafa skorið „Ivan + Haley 23“ á einn vegg Kólosseum. AP

Enskur ferðamaður, sem skar á dögunum nafn sitt og kærustu sinnar á vegg ítalska hringleikahússins Kólosseum, segist ekki hafa gert sér grein fyrir aldri mannvirkisins. Hann hefur nú beðið borgarstjóra Rómarborgar afsökunar á athæfinu og segir það „vandræðalegt“ að hann hafi ekki verið meðvitaður um háan aldur Kólosseum.

Guardian segir frá því að umræddur ferðamaður heiti Ivan Dimitrov og sé 27 ára fitness-þjálfari frá Bristol. Hann hafi skorið „Ivan + Haley 23“ á einn vegg hringleikahússins.

Málið rataði í fréttirnar þegar menningarmálaráðherra Ítalíu, Gennaro Sangiuliano, vakti athygli athæfi mannsins. Birti ráðherrann myndband sem birst hafði annars staðar á samfélagsmiðlum og mynd af Ivan þar sem búið var að gera andlit hans óskýrt.

Sangiuliano sagði á Twitter að hann taldi athæfið mjög alvarlegt, ósæmilegt og merki um mikinn dónaskap að vanvirða einn frægasta stað í heimi með þessum hætti. Krafðist ráðherrann þess að manninum yrði refsað, en lögregla á Ítalíu tókst loks að hafa uppi á manninum í Englandi eftir fimm daga leit.

Dimitrov hefur nú sent Roberto Gualtieri, borgarstjóra Rómar, bréf þar sem biður hann og ítölsku þjóðina afsökunar á málinu. Hann hafi á engan hátt gert sér grein fyrir alvarleika málsins þegar hann hafi skorið nöfnin í vegginn.

Lögregla á Ítalíu er með málið nú til rannsóknar og verði Dimitrov fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér greiðslu sektar, milli 300 þúsund og 2,2 milljóna króna, auk fangelsisvistar.

Kólosseum var reist í stjórnartíð Títusar Rómarkeisara á fyrstu öld eftir Krist.


Tengdar fréttir

Ferða­maður skar nafn unnustu sinnar á vegg Kólos­seum

Menningarmálaráðherra Ítalíu vill að ferðamanni sem skar nafn sitt og unnustu sinnar á vegg hringleikahússins Kolossum í Róm verði refsað. Myndband var tekið af manninum þar sem hann skar nafnið og það birt á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×