Handbolti

Úrslitastund í Berlín

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna sigrinum á Portúgal á fimmtudaginn.
Íslensku strákarnir fagna sigrinum á Portúgal á fimmtudaginn. ihf

Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri getur tryggt sér sæti í úrslitum HM í dag. Í veginum standa Ungverjar.

Ísland komst í undanúrslit HM með sigri á Portúgal í fyrradag, 32-28. Íslenska liðið hefur unnið alla sex leiki sína á mótinu.

Úrslitahelgi HM fer fram í Max Schmeling höllinni glæsilegu í Berlín, heimavelli úrvalsdeildarliðsins Füchse Berlin sem nokkrir Íslendingar hafa leikið með.

Ísland og Ungverjaland eigast við klukkan 13:30 að íslenskum tíma og klukkan 16:00 er komið að leik Þýskalands og Serbíu. Úrslitaleikurinn og leikurinn um 3. sætið fara fram á morgun.

Ef Ísland vinnur Ungverjaland nær liðið sínum besta árangri á HM í þessum aldursflokki frá upphafi. Ólafur Stefánsson, Dagur Sigurðsson, Patrekur Jóhannesson og félagar þeirra lentu í 3. sæti á HM í Egyptalandi fyrir þrjátíu árum.

Ungverjar hafa verið gríðarlega öflugir á HM og unnið alla sex leiki sína, meðal annars gegn Norðmönnum, Dönum og Króötum.

Blaðamaður Vísis er í Berlín og mun flytja fréttir af gangi mála á úrslitahelgi HM U-21 árs liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×