Erlent

Bol­sonaro bannað að bjóða sig fram

Árni Sæberg skrifar
Forsetinn fyrrverandi ræddi við fréttamenn í Belo Horizonte eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp.
Forsetinn fyrrverandi ræddi við fréttamenn í Belo Horizonte eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp. Thomas Santo/AP

Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseta Brasilíu, hefur verið bannað að bjóða sig fram í átta ár. Yfirkjörstjórn landsins komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði framið embættisbrot í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra.

Honum var gefið að sök að hafa grafið undan lýðræði í Brasilíu með því að halda því fram að rafrænar kosningavélar væru viðkvæmar gagnvart tölvuþrjótum og kosningasvindli.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að líklegt sé að lögmenn forsetans fyrrverandi muni áfrýja úrskurði kjörstjórnarinnar. Þeir hafi haldið því fram að fullyrðingar forsetans hafi engin áhrif haft á niðurstöður kosninganna. Bolsonaro tapaði kosningunum gegn núverandi forsetanum Lula da Silva.

Átta ára framboðsbannið var látið taka gildi aftur í tímann, til þess tíma sem kosið var síðast til forseta í landinu, 2. október í fyrra. Verði úrskurðinum ekki snúið við af dómstólum mun Bolsonaro því hvorki geta boðið sig fram í næstu forsetakosningum árið 2026 eða sveitarstjórnarkosningum árin 2024 og 2028.

Hann mun þó geta boðið sig fram í forsetakosningunum árið 2030. Bolsonaro er 68 ára gamall og hefur verið ansi heilsulítill undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×