Erlent

Ríkis­fjöl­miðill á­minntur vegna mynd­skeiðs af kyn­lífi höfrunga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áhorfandanum þótti atburðarásin ekki við hæfi barna.
Áhorfandanum þótti atburðarásin ekki við hæfi barna. Getty/Anadolu Agency/Onur Coban

Fjölmiðlaeftirlitsstofnun Nýja-Sjálands hefur veitt ríkisfjölmiðlinum TVNZ áminningu fyrir að heimila náttúrulífsþátt fyrir alla aldurshópa. Ákvörðunin var tekin eftir að einn áhorfandi kvartaði undan atriði sem sýndi mökun höfrunga.

Í umræddu atriði, sem birtist í þáttunum Our Big Blue Backyard, sést hvernig hópur af karlkyns höfrunga króa kvenkyns höfrung af á yfirborðinu og skipast á að eiga mök við hana.

Í áliti stofnunarinnar segir að myndskeiðið hafi meðal annars sýnt karlkyns höfrungana synda í kringum kvenhöfrungin. Voru kynfæri þeirra sýnileg og einn sýndur „fara inn í“ kvenhöfrunginn. 

Þá er þess einnig getið að undir hafi spilað hljóðin sem dýrin gáfu frá sér.

Einn þeirra sem sáu þáttinn, maður að nafni Chris Radford, kvartaði undan því að þátturinn hefði verið sýndur um kvöldmatarleytið og verið flokkaður við hæfi allra aldurshópa.

Sagði hann í kvörtun sinni að jafnvel þótt um væri að ræða eðlilega hegðun meðal höfrunga hefði engu að síður verið um að ræða kynferðislegt ofbeldi karlhöfrunganna gegn kvenhöfrungnum, þar sem hún hefði bersýnlega verið að reyna að flýja hópinn.

„Það er ljóst að þetta er atburðarás þar sem leiðbeina þarf börnum frekar um þá hegðun sem sýnd var,“ segir hann. TVNZ vildi hins vegar meina að um væri að ræða fræðslu sem byggði á staðreyndum og að hegðun höfrunganna jafngilti ekki kynferðisofbeldi meðal manna.

Eftirlitsstofnunin var hins vegar sammála Radford og sagði að flokka hefði átt þáttinn þannig að börn ættu ekki að horfa á hann nema með fullorðnum. Sagði stofnunin að atriðið hefði sannarlega geta valdið börnum uppnámi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×