Erlent

Hand­tekinn fyrir að myrða konu á tí­ræðis­aldri, dóttur hennar og tengda­son

Árni Sæberg skrifar
Fólkið fannst á heimili hjónanna á sunnudaginn.
Fólkið fannst á heimili hjónanna á sunnudaginn. Jessica Rinaldi/AP

Christopher Ferguson, bandarískur karlmaður á fimmtugsaldri, var handtekinn í gær eftir að hjón á áttræðisaldri, sem voru að halda upp á gullbrúðkaupsafmæli, fundust látin á heimili þeirra á sunnudag. Móðir konunnar, sem var 97 ára gömul fannst einnig látin.

AP-fréttaveitan hefur eftir Marian Ryan, saksóknara í Middlesex, sem er í námunda við Boston í Bandaríkjunum, að Ferguson hafi verið ákærður fyrir morðið á Gildu D'Amore, 73 ára, eftir að krufning leiddi í ljós að dánarsök hennar var morð.

Þá hafi hann einnig verið ákærður fyrir tvær stórfelldar líkamsárásir og verði að öllum líkindum ákærður fyrir tvö morð til viðbótar þegar krufningum þeirra Bruno D'Amore, 74 ára, og tengdamóður hans Luciu Arpino, 97 ára, lýkur.

Haft er eftir Ryan að Ferguson og ætluð fórnarlömb hans hafi öllu búið í Newton-úthverfinu en að engin tengist virðist hafa verið á milli þeirra.

Sóknin í áfalli

Lögregla ákvað að heimsækja heimili hjónanna á sunnudag eftir að þau mættu ekki í messu, en þau eru sögð hafa verið mjög kirkjurækin. 

Þegar lögreglumenn bar að garði fundu þeir merki um innbrot í kjallaraheimilisins. AP hefur eftir Ryan að þeir hafi gengið inn á óreiðukenndan vettvang þar sem væru augljós merki um átök. Til að mynda hafi alblóðug bréfapressa fundist á vettvangi og mölbrotin húsgögn.

Fregnir af andláti fólksins eru sagðar hafa haft mikil áhrif á samfélagið í Newton sem og sóknina sem hjónin tilheyrðu. Sóknarbörn voru samankomin í kirkjunni í gær og tilkynning var send út um að þrjú þeirra væru látin.

„Tveir einstaklinganna voru að fagna gullbrúðkaupsafmæli [fimmtíu ára]. Eins og þið getið rétt ímyndað ykkur væri þetta harmleikur á hvaða degi sem er, en að fjölskyldan hafi verið samankomin til að fagna slíkum áfanga er sérlega sorglegt,“ er haft eftir Ryan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×