Erlent

Skildi árs gamla dóttur eftir eina heima og fór í tíu daga frí

Máni Snær Þorláksson skrifar
Kristel Candelario er sögð hafa skilið dóttur sína eftir eina heima í tíu daga á meðan hún fór í frí.
Kristel Candelario er sögð hafa skilið dóttur sína eftir eina heima í tíu daga á meðan hún fór í frí. Cuyahoga County Sheriff

Móðir sem býr í borginni Cleveland í Ohio ríki í Bandaríkjunum hefur verið ákærð fyrir morð á dóttur sinni. Hún er sögð hafa farið í tíu daga frí og skilið dóttur sína, sem var sextán mánaða gömul, eftir eina heima á meðan með þeim afleiðingum að hún lést.

Kristel Candelario, sem er 31 árs gömul, er móðirin sem um ræðir. Samkvæmt CBS ferðaðist hún til Detroit í Michigan ríki og Púertó Ríkó á þessum tíu dögum sem hún skildi dóttur sína eftir eina heima. Þegar hún kom aftur á heimili sitt í Cleveland var dóttir hennar meðvitundarlaus svo hún hringdi í neyðarlínuna. 

„Það er óskiljanlegt að móðir skuli skilja sextán mánaða dóttur sína eftir eina án neins eftirlits í tíu daga til þess að fara í frí,“ er haft eftir Michael O'Malley, saksóknaranum á svæðinu. 

Yfirvöld komu að dóttur Candelario í ferðabarnarúmi með skítugum teppum. Klæðningin á rúminu var þakin þvagi og saur. Þá var ljóst að dóttir hennar upplifði vökvaskort.

„Sem foreldrar þá eigum við að vernda og hugsa um börnin okkar. Það að ímynda sér þetta barn, eitt að þjást síðustu dagana sína, það er virkilega hrollvekjandi og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að sjá til þess að réttlætinu verði fullnægt fyrir hana.“

Candelario var handtekin daginn sem hún kom heim úr fríinu. Hún hefur verið ákærð fyrir morð, glæpsamlegt ofbeldi og að koma barni í hættu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×