Fótbolti

Daníel sá þriðji sem fær ekki að fara á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Daníel Tristan Guðjohnsen gæti mögulega spilað sína fyrstu leiki í sænsku úrvalsdeildinni í ár, sautján ára gamall.
Daníel Tristan Guðjohnsen gæti mögulega spilað sína fyrstu leiki í sænsku úrvalsdeildinni í ár, sautján ára gamall. malmoff.se

Tvær breytingar hafa orðið á leikmannahópi Íslands sem í næstu viku hefur keppni á Evrópumóti U19-landsliða karla, á Möltu.

Hinn 17 ára gamli Galdur Guðmundsson, leikmaður FC Kaupmannahafnar, og Benoný Breki Andrésson, einnig 17 ára og leikmaður KR, koma inn í hópinn í staðinn fyrir Daníel Tristan Guðjohnsen og Hilmi Rafn Mikaelsson.

Samkvæmt frétt Fótbolta.net gaf sænska félagið Malmö á endanum ekki leyfi fyrir því að Daníel færi á mótið, og kom sú ákvörðun seint. Daníel vann sig upp í aðalliðshóp Malmö í vor og hefur verið á bekknum hjá liðinu í nokkrum leikjum, og spilað einn deildarleik.

Eins og Vísir greindi fyrst frá hafði tveimur bestu leikmönnum liðsins í undankeppninni, Kristian Nökkva Hlynssyni úr Ajax og Orra Steini Óskarssyni úr FCK, verið meinað að fara á mótið en félögum er ekki skylt að leyfa leikmönnum að fara á EM U19-landsliða.

Hilmir Rafn, sem leikur með Tromsö í Noregi, þurfti hins vegar að hætta við EM vegna meiðsla, samkvæmt frétt Fótbolta.net.

Galdur, sem lék með yngri flokkum Breiðabliks og ÍBV áður en hann fór til FCK, á að baki sjö leiki fyrir yngri landslið Íslands en engan fyrir U19-landsliðið. 

Benoný Breki, sem hefur leikið 10 leiki í Bestu deildinni með KR í sumar og skorað eitt mark, á að baki fimm leiki fyrir U17-landsliðið en engan fyrir U19-landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×