Handbolti

Íslensku strákarnir áfram með fullt hús stiga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði tvö mörk í kvöld.
Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði tvö mörk í kvöld. IHF

Íslenska U-21 árs landslið karla vann Serbíu í síðasta leik riðlakeppni HM í handbolta. Lokatölur 32-29.

Íslensku strákarnir kunna einstaklega vel við sig í Aþenu í Grikklandi þar sem mótið fer fram. Eftir smá bras í fyrsta leik gegn Marokkó hefur íslenska liðið fundið fjölina og í kvöld fékk Serbía á baukinn.

Íslenska liðið var sterkari frá upphafi til enda, mestur var munurinn fimm mörk í fyrri hálfleik en þó aðeins tvö þegar flautað var til hálfleiks. 

Eftir að Serbía skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks sögðu strákarnir „hingað og ekki lengra.“ Serbíu tókst aldrei að jafna metin og á endanum vann Ísland góðan þriggja marka sigur, lokatölur 32-29.

Sigurinn þýðir að Ísland fer áfram í milliriðil með tvö stig og lýkur riðlakeppninni með fullt hús stiga.

Simon Michael Guðjónsson var markahæstur í íslenska liðinu með 8 mörk. Þar á eftir kom Andri Már Rúnarsson með fjögur mörk. Þá varði Brynjar Vignir Sigurjónsson sex skot í markinu og Adam Thorstensen þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×