Erlent

New York slær skjald­borg um lækna sem að­stoða við þungunar­rof

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirvöld í New York ætla að vernda heilbrigðisstarfsfólkið sitt gegn utanaðkomandi saksóknum.
Yfirvöld í New York ætla að vernda heilbrigðisstarfsfólkið sitt gegn utanaðkomandi saksóknum. Getty/John Lamparski

Ríkisþing New York hefur samþykkt lög sem veita læknum sem ávísa og senda þungunarrofslyf til sjúklinga í ríkjum þar sem þungunarrof hefur verið bannað eða aðgengi að því verulega takmarkað vernd.

Samkvæmt lögunum munu yfirvöld og dómstólar í New York ekki aðstoða yfirvöld í öðrum ríkjum við að sækja þá heilbrigðisstarfsmenn til saka sem hafa aðstoðað íbúa viðkomandi ríkis við þungunarrof, svo lengi sem heilbrigðisstarfsmaðurinn hefur farið að lögum New York-ríkis.

Lögin voru samþykkt í neðri deild þingsins með 99 atkvæðum gegn 45 og í efri deildinni með 39 atkvæðum geng 22.

Svipuð lög hafa verið sett í nokkrum öðrum ríkjum þar sem demókratar eru í meirihluta.

„Ég mun setja pillur í póst um leið og ríkisstjórinn hefur undirritað lögin,“ hefur New York Times eftir lækninum Lindu Prine, einum stofnenda Miscarriage and Abortion Hotline. „Þetta verður í fyrsta sinn sem við getum gert eitthvað til að berjast á móti,“ segir Prine um átökin sem nú standa yfir um rétt kvenna til þungunarrofs.

Alls hafa fjórtán ríki allt að því bannað þungunarrof alfarið og í flestum þeirra er spjótunum beint gegn þeim sem aðstoða konur við að gangast undir þungunarrof. 

Eftir að Roe gegn Wade var snúið hefur baráttan um þungunarrof einkum beinst gegn lyfjunum sem eru notuð í flestum tilvikum og er búist við því að málið muni að endanum rata til Hæstaréttar, sem mun ákveða hvort eitt þeirra, mifepristone, verður áfram fáanlegt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×