Körfubolti

Sá verðmætasti týndi bikarnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nikola Jokic er ekki alveg klár á því hvað varð um bikarinn.
Nikola Jokic er ekki alveg klár á því hvað varð um bikarinn. Matthew Stockman/Getty Images

Serbneski körfuboltamaðurinn Nikola Jokic verður seint sakaður um að ganga of langt í fagnaðarlátum sínum eftir að hann vann NBA-deildina í körfubolta með Denver Nuggets á aðfaranótt þriðjudags. Jokic var valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar, en er nú búinn að týna verðlaunagripnum.

Mikilvægasti leikmaður úrslitakeppni NBA-deildarinnar, MVP, hlýtur Bill Russell-bikarinn að loknu úrslitaeinvíginu. Russell var á sínum tíma leikmaður Boston Celtics og var fimm sinnum valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar.

Nikola Jokic varð fyrsti leikmaðurinn í sögunni til að skora flest stig (600), taka flest fráköst (269) og gefa flestar stoðsendingar (190) í einni úrslitakeppni. Hann var því vel að verðlaununum kominn, en virðist þó ekki hafa haft of miklar áhyggjur af því að geyma hann á góðum stað.

„Ég veit það í alvöru ekki,“ sagði Jokic í samtali við ESPN, aðspurður að því hvar bikarinn frægi væri staðsettur.

„Ég skildi hann eftir í einhverju starfsmannaherbergi, en nú er hann horfinn. Þannig að ég veit það ekki, en vonandi skilar hann sér heim til mín.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×