Innlent

Sveitar­stjórn frestar af­greiðslu á fram­kvæmda­leyfi fyrir Hvamms­virkjun

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að afl Hvammsvirkjunar yrði 95 megavött og stærð svokallað Hagalóns fjórir ferkílómetrar.
Áætlað er að afl Hvammsvirkjunar yrði 95 megavött og stærð svokallað Hagalóns fjórir ferkílómetrar. Landsvirkjun

Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur ákveðið að fresta afgreiðslu á umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun til næsta aukafundar sveitarstjórnar. Lagt er til að umhverfisnefnd sveitarfélagsins gefist kostur á að fjalla um málið í ljósi þess að nýjar upplýsingar um ákveðna umhverfisþætti hafi borist sveitarstjórn.

Þetta var ákveðið að fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra í morgun. Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, staðfestir í samtali við fréttastofu að málið verði tekið fyrir á aukafundi sveitarstjórnar sem haldinn verði á föstudaginn í næstu viku, 23. júní.

Á vef sveitarfélagsins kemur fram að ný erindi hafi borist frá Verndarsjóði villtra laxastofna (NASF á Íslandi) og Veiðifélagi Þjórsár þar sem skorað er á sveitarstjórn að hafna beiðni Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi.

Rangárþing ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppur skiluðu í lok síðasta mánaðar sameiginlegri greinargerð þar sem lagt var til að framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni yrði samþykkt að uppfylltum ákveðum skilyrðum. 

Til stendur að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps komi saman til fundar í Árnesi klukkan 17 í dag til að afgreiða framkvæmdaleyfið. Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir í samtali við fréttastofu að sveitarstjórn muni halda sínu striki, þrátt fyrir frestun sveitarstjórnar Rangárþings ytra, og afgreiða málið á fundi sínum síðdegis.

Fjögurra ferkílómetra lón

Hvammsvirkjun yrði á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu þar sem fyrir eru sjö aflstöðvar, en upptök vatnsaflsins yrði í Hofsjökli og Vatnajökli. Virkjunin myndi nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar, frá svokölluðu Yrjaskeri rétt ofan við bæinn Haga og niður fyrir Ölmóðsey austan við Þjórsárholt.

Landsvirkjun sótti um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna tveggja í desember á síðasta ári eftir að Orkustofnun veitti fyrir henni virkjunarleyfi.

Áætlað er að afl Hvammsvirkjunar yrði 95 megavött og stærð svokallað Hagalóns fjórir ferkílómetrar.


Tengdar fréttir

Ný Þjórsárbrú við Árnes gæti farið í útboð í haust

Ný brú yfir Þjórsá á móts við þorpið Árnes er núna á lokastigi hönnunar og gæti farið í útboð í haust. Brúin styttir vegalengdir um tugi kílómetra milli efstu byggða í Árnes- og Rangárvallasýslu en brúarsmíðin er hluti af vegagerð Landsvirkjunar vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×