Golf

Öldunga­deild Banda­ríkja­þings rann­sakar sam­runa PGA og LIV

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Samruni LIV- og PGA-mótaraðarinnar kom eins og þruma úr heiðskýru lofti.
Samruni LIV- og PGA-mótaraðarinnar kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Rob Carr/Getty Images

Samruni PGA- og LIV-mótaraðanna í golfi kom eins og þruma úr heiðskýru lofti fyrir sléttri viku síðan og ráku margir upp stór augu þegar fréttir af samrunanum bárust. Nú hefur öldungadeild Bandaríkjaþings blandað sér í málið og ætlar sér að rannsaka samrunann.

Richard Blumenthal, formaður rannsóknarnefndar öldungadeildarinnar, hefur sent forsvarsmönnum PGA- og LIV-mótaraðanna bréf þess efnis að öll skjöl tengd því hvernig samruninn mun fara fram verði lögð inn til skoðunnar.

LIV-mótaröðin er fjármögnuð af sádiarabíska fjárfestinasjóðnum PIF og Blumenthal segir að skyndileg afstöðubreyting PGA-mótaraðarinnar í garð sjóðsins veki upp spurningar.

„Staða PIF sem armur af sádiarabísku ríkisstjórninni og skyndileg afstöðubreyting PGA-mótaraðarinnar í garð LIV-mótaraðarinnar vekur upp stórar spurningar,“ segir Blumenthal í bréfi sínu.

„Áður en þessi samruni var kynntur var PGA-mótaröðin einn háværasti gagnrýnandi LIV-mótaraðarinnar og sambands hennar við Sádi-Arabíu.“

Eins og áður segir hefur Blumenthal krafist þess að öll skjöl tengd samrunanum verði lögð inn til skoðunnar og gefur hann forsvarsmönnum mótaraðanna frest til 26. júní til að skila þeim inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×