Fótbolti

Mbappé mun ekki fram­lengja í París

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mbappé virðist hafa fengið nóg af því að spila í treyju París Saint-Germain.
Mbappé virðist hafa fengið nóg af því að spila í treyju París Saint-Germain. AP Photo/Thibault Camus

Kylian Mbappé, stórstjarna Frakklandsmeistara París Saint-Germain, hefur tilkynnt félaginu að hann muni ekki framlengja samning sinn sem rennur út sumarið 2024. Ákvörðunin gæti leitt til þess að PSG ákveði að selja leikmanninn í sumar.

Mbappé var orðaður við Real Madríd síðasta sumar og var félagið tilbúið að greiða gríðarlega háa upphæð fyrir leikmanninn þó samningur hans hefði átt að renna út nú í sumar. Á endanum ákvað Mbappé að skrifa undir nýjan samning í París en sá rennur út sumarið 2024. 

Möguleiki var á að framlengja samninginn um eitt ár en leikmaðurinn hefur ákveðið að nýta ekki þann valmöguleika og verður því samningslaus næsta sumar.

Hinn 24 ára Mbappé hefur nú staðfest að hann muni ekki framlengja núverandi samning sinn og getur því farið frítt frá PSG næsta sumar. Vilji félagið fá eitthvað fyrir stjörnuna sína verður það að selja hann í sumar.

Sama hvað gerist má reikna með miklum breytingum hjá PSG á næstu mánuðum en Lionel Messi hefur þegar samið við Inter Miami í MLS-deildinni í Bandaríkjunum og þá er hinn brasilíski Neymar orðaður við lið í Sádi-Arabíu.

Mbappé gekk í raðir PSG fyrir tímabilið 2017/18. Alls hefur hann spilað 260 leiki í öllum keppnum fyrir félagið, skorað 212 mörk og gefið 98 stoðsendingar. Þá hefur hann spilað 68 leiki fyrir Frakkland og skorað 38 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×