Erlent

Lög­menn Trump funduðu um gagna­málið í dóms­mála­ráðu­neytinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fundurinn þykir til marks um að lögmenn Trump telji ákærur yfirvofandi.
Fundurinn þykir til marks um að lögmenn Trump telji ákærur yfirvofandi. AP/Jose Luis Magana

Þrír lögmenn Donald Trump áttu tveggja tíma fund í dómsmálaráðuneytinu í Washington í gær til að ræða framgöngu sérstaks saksóknara við rannsókn á meðhöndlun forsetans fyrrverandi á leynilegum gögnum.

Hvorki dómsmálaráðherrann Merrick B. Garland né aðstoðardómsmálaráðherrann Lisa O. Monaco voru viðstödd fundinn og þá liggur ekki fyrir nákvæmlega hvað var til umræðu en vísbendingar eru uppi um að rannsókninni sé að ljúka.

Lögmennirnir; James Trusty, John Rowley og Lindsey Halligan, neituðu að tjá sig við blaðamenn eftir fundinn. Skömmu eftir að honum lauk birti Trump hins vegar færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social sem virðist benda til þess að hann geri ráð fyrir því að verða ákærður í málinu.

„HVERNIG GETUR DOJ MÖGULEGA ÁKÆRT MIG, SEM GERÐI EKKERT RANGT,“ skrifaði Trump. DOJ stendur fyrir „department of justice“, dómsmálaráðuneytið.

Lögmenn Trump, núverandi og fyrrverandi, hafa verið gagnrýnir á framgöngu saksóknarans Jack Smith, sem er meðal annars sakaður um ósanngirni í garð Trump.

Enn á eftir að leiða vitni fyrir sérstakan kviðdóm í Flórída og þá er enn unnið að rannsókn atviks þar sem tæming sundlaugar í Mar-a-Lago var sögð hafa valdið skemmdum í herbergi þar sem myndefni úr öryggismyndavélum á heimili forsetans voru geymd.

New York Times hefur hins vegar eftir heimildarmönnum að þótt engin ákvörðun um ákærur liggi fyrir geri forsetinn fyrrverandi ráð fyrir þeirri niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×