Erlent

Unnið að rýmingu og Selenskí boðar til neyðar­fundar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gervihnattamynd af stíflunni í gær. Úkraínumenn saka Rússa um að hafa sprengt upp stífluna en Rússar segja hana hafa brostið sökum skemmda í átökunum.
Gervihnattamynd af stíflunni í gær. Úkraínumenn saka Rússa um að hafa sprengt upp stífluna en Rússar segja hana hafa brostið sökum skemmda í átökunum. AP/Maxar Technologies

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hefur boðað til neyðarfundar vegna eyðileggingar Nova Kakhovka-stíflunnar í Kherson. Unnið er að rýmingu vegna flóðahættu. Úkraínuher segir Rússa hafa sprengt stífluna en leppstjórn þeirra á svæðinu segir um hryðjuverk að ræða.

Nova Kakhovka-stíflan er 30 metra há og 3,2 kílómetra löng og var byggð árið 1956. Hún hefur verið á valdi Rússa um nokkurt skeið og sér Krímskaga og Zaporizhzhia-kjarnorkuverinu fyrir vatni, sem hafa einnig verið undir stjórn Rússa.

Uppistöðulónið fyrir ofan stífluna er sagt hafa talið um átján rúmkílómetra af vatni.

Hermálayfirvöld í Úkraínu saka hersetuliðið um að hafa sprengt stífluna í loft upp en í rússneskum fjölmiðlum segir að hún hafi skemmst í átökum. Þá segja leppstjórar Rússa á svæðinu að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

Yfirvöld í Úkraínu segja flóð vegna eyðileggingar stíflunar munu ná hámarki eftir um það bil þrjár klukkustundir  og rýmingar séu hafnar. 

Allt að tíu þéttbýliskjarnar eru sagðir hafa verið rýmdir. Íbúar eru hvattir til að slökkva á rafmagnstækjum, taka með sér mikilvæg skjöl, huga að ástvinum og gæludýrum og hlýða fyrirmælum viðbragðsaðila.

Eyðilegging stíflunar hefur þegar verið kölluð „umhverfismorð“ af ráðamönnum í Úkraínu og sendiherra Breta í landinu, þar sem flóðvatnið muni valda mikilli eyðileggingu og afleiðingarnar verða umfangsmiklar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×